Una Dögg Guðmundsdóttir er mikill áhugabakari og elskar að baka kökur fyrir hver kyns tilefni. Una er 35 ára Seltirningur og á tvær yndislegar stelpur og svo er von á litlum strák á næstu vikum. Unnusti Unu er Árni Þór Ragnarson. Una heldur úti Instagramsíðunni @una_bakstur og deilir þar uppskriftum fyrir áhugasama. Einnig er Una starfandi í markaðsdeild Heimkaupa og nú í þessari viku fór af stað skemmtileg hugmyndavinna á bak við uppskriftir Unu.

Krakkanesti Unu nýjung

„Ég deili alls konar skemmtilegum hugmyndum þar, svo sem Krakkanesti, kvöldmat, partí- og pinnamat fyrir veislur og ýmiss konar gómsætum uppskriftum af kökum. Það er svo gaman að starfa hjá Heimkaup og aðstoða fólk við að einfalda líf þeirra. Núna getur fólk farið á netið og keypt allt fyrir uppskriftir og fengið sent heim til sín innan tveggja tíma,“ segir Una.

Býður fjölskyldu og vinum í þjóðhátíðarkaffi

Una heldur mikið upp á 17. júní.

„Ég elska þennan dag, sérstaklega þegar veðrið er gott. Ég hef haft það sem vana að kíkja niður í miðbæ og kanna menninguna á þessum skemmtilega hátíðardegi okkar Íslendinga. Þjóðhátíðardagurinn verður kannski aðeins öðruvísi í ár þar sem að ég er að fara að eignast mitt þriðja barn á næstu dögum. Ætli við fjölskyldan kíkjum ekki í sundlaugina ef veður leyfir og svo finnst mér líklegt að ég bjóði fjölskyldu og vinum heim í kaffi og kræsingar. Sennilega best að sleppa miðbæjargöngunni þegar maður er rétt að fara að eignast barn, það er allavega aðeins erfiðara núna miðað við síðustu ár.“

Una er búin að ákveða þjóðhátíðarkökuna í ár sem hún ætlar að bjóða með kaffinu og það má búast við að hún muni fuðra upp ofan í gestina á örskammri stundu. Hér er um að ræða algjöra sælkerabombu sem enginn mun standast.

„Þjóðhátíðarkakan í ár verður mjúkur marengsbotn rúllaður upp með rjóma, ferskum ávöxtum og himnesku banana Nóa kroppi, sem sagt Marengsrúlluterta í hátíðarbúningi,“ segir Una sem nýtur þess í botn að töfra fram sælkerakökur sem gleðja bragðlaukana.

Tertan er sannarlega girnileg. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Marengsrúlluterta í hátíðarbúningi

4 eggjahvítur

200 g sykur

2 tsk. vanilludropar

1 banani

200 g jarðarber

150 g bláber

400 ml rjómi

150 g Nóa Síríus banana Nóa kropp

1.Byrjið á að stilla ofninn á 150°C.

2.Klæðið bökunarplötu með bökunarpappír.

3.Þeytið eggjahvítur þar til þær fara að freyða vel og hellið sykrinum hægt og rólega saman við, vanilludroparnir fara svo næst saman við. Þeytið vel saman eða þar til að stíf marengsblanda myndast.

4.Hellið marengsblöndunni á bökunarpappírinn og sléttið vel úr.

5.Bakið í 25 mínútur, takið út úr ofninum og látið kólna.

6.Á meðan marengsinn er að kólna er upplagt að byrja á fyllingunni.

7.Þeytið rjóma og að lokum eru ávextirnir (niður skornir) og Nóa kroppið sett saman við rjómann.

8.Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði.

9.Snúið marengsbotninum varlega við svo að botninn snúi upp, leggið rjómann ofan á ásamt helmingnum af súkkulaðiblöndunni.

10.Rúllið botninum varlega upp í rúllu, gott að rúlla honum upp með hjálp bökunarpappírsins.

11.Hellið restinni af súkkulaðinu yfir ásamt ferskum berjum og smá Nóa kroppi.

12.Geymist í kæli í um 2 klukkustundir áður en borið fram.

Svo er einstaklega gaman að skreyta kaffihlaðborðið á þjóðlegan hátt og kalla fram 17. júní stemninguna. ■