Árlegt Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram í dag líkt og landsmenn vita flestir. „Hlaupið hefur fest sig í sessi sem einn stærsti fjölskylduviðburður í Reykjavík, þar sem allir geta fundið vegalengd við sitt hæfi. Hlaupurum gefst kostur á að velja á milli fimm vegalengda, allt frá 600 metra skemmtiskokki til maraþons, auk þess sem þeim gefst kostur á að hlaupa til styrktar góðu málefni og fer áheitasöfnun fram á hlaupastyrkur.is,“ segir Edda Hermannsdóttir, markaðs- og samskiptastjóri Íslandsbanka. Edda hleyptur hálft maraþon fyrir styrktarfélagið Líf.

„Undanfarin ár hefur verið unnið að því hörðum höndum að bæta upplifun hlaupara í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka og höfum við hjá bankanum og samstarfsaðilar okkar hjá ÍBR verið dugleg við að heyra í hlaupurum. Einn liður í því var að breyta hlaupabrautinni, fjölga peppstöðvum á hlaupaleið og gera verðlaunapeninginn veglegri,“ segir Katrín Þ. Jóhannsdóttir, verkefnastjóri maraþonsins. Sjálf hleypur hún 10 kílómetra fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna.

„Töluverðar breytingar hafa verið gerðar á hlaupaleiðinni í maraþoninu milli ára til að bæta stemningu og auka upplifun hlaupara. Nýja leiðin er mjög fjölbreytt og er nú einn hringur en ekki hlaupin að hluta til sama leiðin tvisvar eins og áður. Þetta er mikill kostur fyrir hlaupara. Þá liggur brautin nú meira í gegnum íbúagötur borgarinnar,“ segir Katrín.

Edda segir skemmtilegt að fylgjast með þeim breytingum sem orðið hafa á maraþoninu. „Þegar hlaupastyrkur byrjaði, þá var það nær eingöngu starfsfólk bankans sem var að heita á hlaupara en í dag er magnað að sjá hversu vel söfnunin gengur og hjálpar góðgerðarfélögunum mikið. Í dag eru það sögur hlauparanna og góðgerðarfélaganna sem drífa þetta áfram og virkilega gaman að sjá allan þennan fjölda vekja athygli á sínum málefnum,“ segir Edda.

Hægt er að heita á hlaupara á hlaupastyrkur.is til kl.12.00 á mánudagskvöldið.