Söngvarinn og sundkappinn Már Gunnarsson segir frá því í einlægri færslu á samfélagsmiðlum í dag hvernig hann hefur ekki þorað að vonast til að öðlast bætta sjón í gegnum tíðina, fyrr en nú.

„Í gegnum tíðina hefur því af og til verið fleygt fram að vonandi einhvern tímann í fjarlægri framtíð verði hægt að bæta eða lækna sjónina mína. Maður hefur kurteisilega brosað, kinkað kolli og sagt já já, án þess að þora að vona eða búa til væntingar fyrr en nú,“ segir Már.

Ástæðan sé sú að hann hafi verið að syngja á alþjóðlegri augnlæknaráðstefnu um daginn. „Ég spurði í gríni einn augnlækninn- hvenær ætlið þið að fara að lækna þetta LCA. Ég bjóst við gríni til baka en hann tjáði mér í fúlustu alvöru að gríðarlega margt væri að gerast, hann myndi hjálpa mér og að við ættum að heyrast betur eftir ráðstefnuna.“

Að sögn Más eru um 400 manns með sama sjúkdóm og hefur slík aðgerð skilað árangri í 90 prósent tilfella.

„Ég er kominn í samband við augnlækna erlendis sem þekkja allar nýjustu aðferðir og eru nú að aðstoða mig, fara yfir mín mál og skoða hvað hægt er að gera.

Tilfinningarnar eru blendnar þar sem maður vill trúa að þetta gæti gengið en hættan á að verða fyrir vonbrigðum er til staðar,“ segir Már.