Sund­kappinn og tón­listar­maðurinn Már Gunnars­son hefur á­kveðið að láta glæstan sund­feril sinn víkja fyrir tón­listinni. Hann er að hefja nám í einum virtasta tón­listar­há­skóla Bret­lands, A­cademy of Con­temporary Music, í haust og ætlar því að ein­beita sér al­farið að tón­listinni.

Hann segir at­burða­rásina, frá því hann sótti um og þar til hann var sam­þykktur inn í skólann, hafa verið nokkuð hraða. „Eftir Söngva­keppnina og Ólympíu­leikana hugsaði ég mikið um það hvað ég vildi gera með líf mitt. Fyrir nokkrum mánuðum sendi ég inn um­sókn og fyrir stuttu fékk ég svar um að ég væri kominn inn,“ segir Már brosandi.

Hundurinn Max fer með

Már segist strax hafa farið af stað í pappírs­vinnuna sem fylgi slíkum flutningum milli landa, þar á meðal að sækja um land­vistar­leyfi.

„Það var ó­geðs­lega mikið vesen að fá vísa. Ég var átta tíma að fylla út eitt­hvað eyðu­blað um að ég væri ekki hryðju­verka­maður,“ segir Már og hlær. Hann bætir þó við að enn sé smá pappírs­vinna eftir, þar sem til standi að Max, leið­sögu­hundurinn hans, flytji með honum.

Langar í gott kveðju­partí

Már segir að þegar það hafi orðið ljóst hann væri á leiðinni er­lendis í tveggja ára nám hafi kviknað sú hug­mynd að halda kveðju­tón­leika. Þessi hug­mynd hafi þróast yfir í tón­leika­röð sem hefur hlotið heitið Sjáumst, þar sem þrennir tón­leikar eru á dag­skrá.

„Ég hugsaði með mér að það væri gaman að vera með gott kveðju­partí áður en ég fer. Auk þess þá var ég ekki beint á launum við að æfa sund og maður þarf að eiga fyrir skóla­gjöldunum. Þannig að tón­leikarnir eru bæði tæki­færi fyrir mig til þess að kveðja landa mína í bili og sömu­leiðis fjár­öflun fyrir námið,“ segir Már.

Lofar frá­bærri stemningu

Lands­lið ís­lenskra hljóð­færa­leikara verður Má til halds og trausts á tón­leikunum auk gesta­söngvara, sem Már segir að verði kynntir til leiks þegar nær dregur.

„Ég er búinn að vera eins og þeyti­vinda út um allt að hengja upp plaköt og koma tón­leikunum á fram­færi þannig að sem flestir taki eftir þessu og sjái sér fært að mæta,“ segir Már, sem lofar tón­leika­gestum æðis­legum tón­leikum og frá­bærri stemningu.

Allar frekari upp­lýsingar um tón­leika­röðina, dag­setningar og miða­sala eru á Tix.is.