Már Gunnars­son, ólympíu­fari og sund­kappi, segist vera að farast úr hrifningu yfir nýjum leið­sögu­hundi sem hann vinnur nú með. Hann segir að allt frá því að hann var lítill hafi hann hugsað til þessara dýra og að hann gæti ekki beðið þess að fá að vinna með einum slíkum, en Már er með með­fæddan augn­sjúk­dóm sem veldur blindu.

„Þegar ég var lítill hugsaði ég oft til þessara mögnuðu dýra og ég gat ekki beðið þangað til ég yrði nógu gamall til að sækja um leið­sögu­hund og nú er hann bara mættur! Og við á fullu að læra inn á hvorn annan,“ segir Már í færslu sem hann deilir um málið á Face­book.

Hann segir að hundarnir séu þjálfaðir til að að­stoða blinda og sjón­skerta og að það séu miklar reglur í kringum starf hans og því biður hann fólk að láta það vera að heilsa hundinum þegar þau hitta þá, það geti truflað störf hans.

„Ég get ekki beðið eftir því að kynnast þessum snillingi og þeim tæki­færum sem okkar sam­starf mun bjóða upp á!“