Manuela Ósk Harðardóttir, fyrrum Ungfrú Ísland og framkvæmdastjóri fegurðarsamkeppninnar Miss Universe Iceland, fékk heilablóðfall fyrir um þremur vikum en er nú á batavegi.

„Í rauninni er þetta bara risastórt áfall fyrir mig og alla í kringum mig. Þetta er eitthvað sem maður hræðist en samt hugsar maður að þetta komi ekki fyrir mann,“ segir Manuela klökk.

„Þetta gerði í raun engin boð á undan sér en ég var búin að vera með mikinn höfuðverk þennan dag. Ég var sem betur fer ekki ein heldur var ég í heimsókn hjá frænku minni,“ upplýsir Manuela sem fer fögrum orðum um frænku sína og segir hana hafa bjargað lífi sínu með skjótum viðbrögðum.

Manuela missti málið og máttinn í líkamanum við heilablóðfallið en komst fljótt undir læknishendur og fékk viðeigandi meðferð.

Á taugadeild yfir hátíðirnar

Að sögn Manuelu hafa líkamlegu einkennin gengið að mestu til baka og samkvæmt læknum hennar mun hún ná sér að fullu. „Líkamlegu einkennin gengu til baka á nokkrum dögum þrátt fyrir smá hausverk og þreytu, en þetta tekur langmest á andlegu hliðina. Við svona áfall fylgir rosalega mikill kvíði þegar lífið kippir fótunum svona undan manni.“

Aðspurð segir Manuela að enn sé óljóst hvað hafi valdið heilablóðfallinu en hún hafi dvalið á taugadeild Landspítalans í tvær vikur í rannsóknum en engin niðurstaða sé komin, enn sem komið er.

„Ég er í ótrúlega góðum höndum hjá æðislegum læknum og er komin í endurhæfingu á Grensás þrisvar sinnu í viku, það er bara englar sem vinna þar,“ segir Manuela þakklát en þar mætir hún í sjúkraþjálfun, til iðjuþjálfa, næringarfræðings og sálfræðings.

Styður Hrafnhildi á hliðarlínunni

Líkt og greint var frá á dögunum átti Manuela að vera stödd í New Orleans ásamt Hrafnhildi Haraldsdóttur sem keppir fyrir Íslands hönd í Miss Universe sem fer fram annað kvöld.

„Þetta er eins heartbreaking eins og það gerist þar sem ég legg svo mikið hjarta í þetta verkefni. En ég styð hana eins og ég get á hliðarlínunni,“ segir Manuela einlæg.

Manuela Ósk er framkvæmdastjóri Miss Universe Iceland.
Fréttablaðið/Instagram