Bjarney kynntist jóga árið 2012 þegar hún byrjaði að stunda kundalini jóga hjá Írisi Eiríks í Yogahúsinu í Hafnarfirði. „Upphaflega fór ég að stunda jóga til að styrkja líkamann og auka liðleikann af því að ég var frekar stirð. En ég hafði fleiri ástæður. Ég hafði nýlega gengið í gegnum erfitt tímabil andlega og líkamlega vegna skurðaðgerðar og lyfjameðferðar vegna endómetríósu. Ég vildi líka byggja upp vöðvastyrk eftir aðgerð á hægra hné sem heppnaðist því miður ekki vel. Svo var ég líka að undirbúa mig andlega og líkamlega undir að fara í glasafrjóvgunarmeðferð hjá Art Medica. Það er tímafrekt ferli og ég vildi vera vel undirbúin,“ segir Bjarney.

Bjarney segir að auk þess að styrkjast og verða liðugri hafi hún tekið eftir því að jógað hafði góð áhrif á kvíðann sem kom í kjölfar meðferðarinnar. „Ég réð betur við hann. Það er aðallega af því að maður lærir að hugleiða og gera öndunaræfingar. Að draga andann djúpt og leyfa sér að vera í núinu hefur mjög mikið að segja fyrir mig.“

Jógað hafði það jákvæð áhrif á Bjarneyju að hún ákvað að læra jógakennarann. Hún lærði hjá Guðrúnu Darshan í jóga- og heilsustöðinni Andartaki. „Það var mjög gott nám. Maður lærir mikið inn á sjálfa sig í jógakennaranámi,“ segir Bjarney. „Maður þarf að staldra aðeins við og það ýtir á ákveðna punkta hjá manni, eins og í hugleiðslunni og öllu sem maður les í tengslum við námið. Það er svo margt sem maður leggur til hliðar sem ég hafði gott af að tækla í náminu til að geta skilið út á hvað jóga gengur.“

Vildi deila jákvæðri reynslu

Bjarney segir að hún hafi viljað kenna jóga til að deila áfram jákvæðri reynslu sinni af því. „Jógað hefur jákvæð áhrif á mig á svo margan hátt, bæði æfingarnar, hugleiðslan og svokallaður möntrusöngur. Það er svo mikill hraði í samfélaginu í dag og fólk gefur sér oft ekki tíma til að sinna sjálfu sér. En það skiptir svo miklu máli. Ég hef mikinn áhuga á uppbyggilegum samskiptum við aðra og þess vegna langar mig að deila minni reynslu. Margir setja líkamann og hugann í síðasta sætið, en jógað hefur gefið mér tól og tæki sem hlúa betur að þessum þáttum. Þetta er lífsstíll sem hentar mér og minni heilsu mjög vel.“

Bjarneyju finnst mikilvægt að huga að líkamlegri og andlegri heilsu. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Margir sem aldrei hafa stundað jóga halda að það sé bara til ein tegund af því. En Bjarney segir það mikinn misskilning. „Það eru til svo margar tegundir með ólíkar áherslur og útfærslur. Ég lærði kundalini og það hentar mér mjög vel út af hugleiðslunni og öndunaræfingunum. Það getur verið mjög krefjandi að sitja á stól í þrjár mínútur og hugleiða, en með æfingunni verður það ekkert mál og áður en þú veist af ertu komin upp í 30 mínútur. En öðrum hentar kannski betur einhver önnur tegund af jóga, allir ættu að geta fundið eitthvað sem hentar þeim.“

Ásamt því að stunda og kenna jóga er Bjarney líka virk í björgunarsveit og nældi sér nýlega í kennsluréttindi í foam flex. „Foam flex eru æfingar með bolta. Þetta er svona sjálfnuddandi aðferð. Það er unnið með vöðvabandvef og trigger-punkta. Ef þú ert stíf í einhverjum vöðvum eða með verki þá geturðu losað um þá. Mannslíkaminn er bara svo magnaður. Við höfum svo margar leiðir til að láta okkur líða vel. Það er svo mikilvægt að gefa sér tíma til að huga að heilsunni.“

Björgunarsveit góður félagsskapur

Hugmyndin um að byrja í björgunarsveit kviknaði hjá Bjarneyju þegar hún vann í gæslunni á Þjóðhátíð í Eyjum árið 2017. „Stuttu eftir Þjóðhátíðina sá ég auglýsingu á Facebook um kynningarfund hjá Flugbjörgunarsveit Reykjavíkur og ég fór þangað með vinkonu minni. Ég varð alveg heilluð af starfseminni sem fer fram í björgunarsveitunum og þeirri þjálfun sem er í boði svo ég ákvað að kýla bara á þetta. Ég hugsaði með mér að þetta væri gott málefni. Ég væri að styrkja líkamann og læra sjálfsbjargarviðleitni,“ segir Bjarney og bætir við að hún hafi ekki undirbúið sig mikið áður en hún byrjaði, hún hafði verið dugleg að ganga á fjöll um sumarið en það var allt og sumt.

Við tók þjálfun í tvö ár hjá Flugbjörgunarsveitinni sem Bjarney segir að hafi gefið sér mjög mikið. „Hreyfingin sem fylgir þessu er mjög góð og félagsskapurinn líka. Þegar maður er í björgunarsveit þá eignast maður aðra fjölskyldu. Ég held að langflestir sem eru í björgunarsveit séu sammála mér um það.“

Bjarney segir að það að stunda jóga og vera í björgunarsveit sé ákveðinn lífsstíll. „Það er svo gott að geta hjálpað öðrum. Mér finnst það skipta miklu máli að geta gefið af sér og maður þarf ekkert að fá eitthvað til baka. Í jóganu skiptir bara máli að gefa af sér og upplifa það að öðrum líði vel. Í björgunarsveitinni er það samheldnin sem skiptir svo miklu máli. Í hópnum mínum í björgunarsveitinni var breitt aldursbil en samheldnin var mikil. Mér fannst það svo frábært því það er ekkert sjálfgefið.“

Bjarney kynntist manninum sínum í björgunarsveitinni en hann er mjög virkur þar. „Björgunarsveitin er okkar lífsstíll. Maður verður að halda sér í góðu formi og vera tilbúin þegar útkallið kemur. Mér hefur samt ekki tekist að fá manninn minn til að stunda jóga, það er ýmislegt annað í forgangi hjá honum. En það tekst vonandi einhvern tímann,“ segir Bjarney.