Mér er mjög umhugað um mannréttindi og byrjaði að skrifa bókina 2018 þegar fréttir fóru að berast af börnunum í búrunum á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna. Þótt söguþráðurinn komi börnum í búrum í rauninni ekkert við,“ segir Hrafnhildur Faulk, höfundur Example, vægast sagt drungalegrar ádeilu á Bandaríki Donalds Trump.

„Mér fannst þetta bara orðið óhugnanlegt og andrúmsloftið í Bandaríkjunum orðið svo dystópískt og þannig varð sagan bara einhvern veginn til. Mér fannst hún birtast mér svolítið eins og bíómynd sem ég skrifaði niður. Eða þannig,“ segir Hrafnhildur sem er bandarísk í föðurætt og fædd í Norður-Karólínu.

Tjáningarfrelsið afnumið

Example gerist í Bandaríkjunum í allra nánustu framtíð þegar ónefndur forseti hefur náð endurkjöri og íhaldsöflin hafa náð svo sterkum undirtökum að tjáningarfrelsið er skyndilega afnumið.

Í kjölfarið er Henry Davis, rúmlega fertugur, hortugur blaðamaður, handtekinn fyrir gagnrýni á stjórnvöld og ákveðið að gera úr honum víti til varnaðar með því að refsa honum fyrir lögbrotið með opinberri húðstrýkingu sem er sjónvarpað á öllum rásum.

„Þannig að þetta er náttúrlega í rauninni dálítið mikil ádeila á Trump og ríkisstjórn hans og er í rauninni mín sýn á það sem gæti gerst ef hann yrði endurkjörinn og færi gjörsamlega yfir strikið,“ heldur Hrafnhildur áfram og segist telja mál- og tjáningarfrelsið í raunverulegri hættu.

„Mér fannst líka þessi orðræða, sem var einhvern veginn búið að normalísera, svo óhugnanleg. Hvernig Trump talar við og um blaðamenn og fréttamenn og er alltaf að reyna að koma því inn hjá fólki að þetta séu „fake news“ og þetta sé slæmt fólk og þetta séu ömurlegar spurningar og allir séu ógeðslega ömurlegir.“

Alþjóðlegt erindi

Eftir að hafa þreifað fyrir sér og kannað ýmsa möguleika ákvað Hrafnhildur að gefa bókina út á Amazon enda hafi hún verið ákveðin í að koma henni út sama á hverju gengi.

Hrafnhildur hefur sínar ástæður fyrir enskunni og höfundarnafninu H.R. Faulk. „Mér fannst þetta ekkert sérstaklega íslenskur veruleiki þannig að bókin varð einhvern veginn til á ensku. Ég hugsa einhvern veginn jafnt á íslensku og ensku. Markaðurinn er náttúrlega stærri og vegna þess að ég var að gefa út fyrir alþjóðlegan markað var ég hrædd um að nafnið Hrafnhildur kynni að fæla fólk frá. Auk þess sem það er líka sorgleg staðreynd að bækur eftir konur eru síður lesnar. Mér fannst H.R. Faulk frekar hlutlaust og geta verið hver eða hvað sem er og hvaðan sem er.“

Gróft ofbeldi

„Ég vildi líka koma því að hvað það væri auðvelt að fremja mannréttindabrot þegar lýðræðið er ekki lengur til staðar og hvað þetta er í rauninni brothætt.

Ég veit að það er gróft ofbeldi þarna á köflum og að einhverjir munu ekkert kæra sig um að lesa þessa bók. Ég vara fólk alveg við grófu ofbeldinu. Kannski vegna þess að ég vil ég ekki að fólk verði reitt út í mig.“

Þá segist Hrafnhildur ekki hafa valið þolanda skoðanakúgunarinnar og ofbeldisins út í bláinn. „Persónan mín er hvítur, menntaður, evrópskur karlmaður og fólk hérna er svo vant því að slíkir einstaklingar séu öruggir.

Ef við setjum þá í svona aðstæður þá einhvern veginn held ég að það stuði fólk meira heldur en ef þetta væri til dæmis suður-amerísk kona.

Þetta gengur alveg svolítið nærri fólki en mér finnst þetta þurfa að hreyfa við fólki og ef þetta gerir það ekki þá þurfum við kannski eitthvað að fara að athuga okkar gang.“

Bók Hrafnhildar er til sölu á Amazon.com og er vægast sagt harkalegt víti til varnaðar.