Þórarinn var ekki nema 15 ára gamall þegar hann steig sín fyrstu skref í húsasmíðabransanum. „Ég byrjaði á einfaldari byggingum á sumrin í sveitinni, svo fór ég í nám í húsasmíði. Þá byrjaði ég ungur að kenna árið 1976 og hefur kennslan verið mitt aðalstarf í rúmlega fjörutíu ár.

Eftir tíunda ár mitt í kennslu jók ég við mig námi í byggingariðnfræði í Danmörku. Á þessum tíma hef ég verið duglegur að grípa í smíðavinnuna líka til að fylgjast með markaðnum og uppfæra það sem hefur breyst í iðnaðinum,“ segir Þórarinn sem kennir húsasmíði við Tækniskólann.

Þórarinn Eggertsson hefur kennt húsasmíði í 45 ár og man tímana tvenna.

Breyttir tímar í blikkinu

„Það hefur til dæmis breyst frá því sem áður var að blikk þakrennur í dag koma að miklu leyti tilbúnar með fittings, eða lokum og samsetningum, stútum og niðurföllum sem er svo púslað saman. Áður var þakrennuvinnan í höndum blikksmíðaverkstæðanna sem suðu saman og smíðuðu rennur fyrir sérhvert hús. Þessi vinna við húsasmíði hefur því færst að miklu leyti frá blikksmiðum yfir til húsasmiða.

Það er þó ekki þar með sagt að þessi vinna sé alfarið farin úr höndum blikksmiða, enda þarf oft að sérsmíða rennur í sérstökum tilfellum. Það eru ekki öll hús eins og sums staðar henta ekki þær forsmíðuðu rennur sem fást. Þá er mjög gott að geta leitað til blikksmiða sem bjarga sérsmíðuðum hlutum.“

Þá er ekki ráðlagt að velja plastþakrennur ef fólk býr á snjóþungum svæðum, og þá sérstaklega þar sem snjór sest á þak, safnast upp og rennur niður í hláku.

Plastið bognar undan snjóþunga

Þakrennur fást í ýmsum gerðum og úr ólíkum efnum eftir því hvaða útliti er sóst og hver endingin þarf að vera. „Rennur fást ýmist úr blikki, áli eða plasti, sem eru algengustu efnin. Einnig fást þakrennur úr kopar sem er sjaldgæft en þykir bæði fallegt og veglegt.

Sama úr hvaða efni rennurnar eru, þá virka þær raunverulega eins. Kosturinn við álið og koparrennurnar, og raunar plastið líka er að þessi efni ryðga ekki á meðan blikkið, sem er þunn plata úr járnblendingi, á það til að ryðga og endist því ekki jafnvel og álið eða koparinn. Plastið á það hins vegar til að brotna ólíkt hinum efnunum. Þá er ekki ráðlagt að velja plastþakrennur ef fólk býr á snjóþungum svæðum, og þá sérstaklega þar sem snjór sest á þak, safnast upp og rennur niður í hláku. Þá á plastið enga möguleika, bognar og brotnar svo undan þunganum.“

Tískustraumar í þakrennum

Á tímabili segir Þórarinn að hafi verið í tísku að byggja þakrennur inn í þakkantana. „Þetta þótti fallegra en að hafa rennurnar sýnilegar utan á húsinu. En þetta hefur breyst frá því áður, og í dag eru rennurnar oftast sýnilegar utan á húsunum. Það var enda töluvert meira mál að ganga rétt frá rennunum þegar þær voru innbyggðar í kantana. Þá var oft vandamál að ganga þannig frá að það væri ekki opið inn í þakkantana.

Opnir þakkantar eru fyrirtaks íverustaður fyrir fugla og þrestir, og sérstaklega starrinn, gátu farið í þetta og gert sér hreiður. En starranum fylgir oft hvimleið lús sem getur verið til ama. Í tilfelli raðhúsa og einbýla er það orðin venja að hafa þakrennurnar utan á húsunum. Byggingarstíllinn á blokkunum í dag býður hins vegar upp á að vera með þakrennur og niðurföll innan í blokkunum og ekki utan á klæðningunni. Blokkir í dag eru oftar en ekki með flöt þök og sum hver með möl og þakpappa undir.“

Tilgangurinn með ufsagrýlunum sem víða má sjá í gotneskri byggingarlist, var að koma rigningarvatni í hæfilega fjarlægð frá veggjum bygginga.

Niðurföll en ekki ufsagrýlur

Niðurföllin eru í dag oftast hluti af þakrennukerfinu og taka við því sem streymir úr rennunum. Þau eru úr sama efni og rennurnar og eru fest með spennum í veggina. Oft er rist í þeim sem hindrar að lauf og annað stífli niðurföllin.

„Á Íslandi er langalgengast að niðurföllin séu 70 mm sver, sem í samanburði við margar erlendar borgir er ekki svo svert. Því hér á Íslandi rignir yfirleitt ekki svo mikið í einu, en víða erlendis streymir gífurlegt magn í niðurföllin á rigningartímabilum og þá þurfa niðurföllin að geta tekið á móti. Hér heima rennur vatnið úr þakrennum alltaf í niðurfall sem er lagt í jörð og berst í frárennsliskerfið, en í eldri borgarhlutum erlendis má oft sjá vatnið streyma úr þakrennum og beint á stéttina.“ Þar má til dæmis nefna ufsagrýlurnar sem víða má sjá í gotneskri byggingarlist. Tilgangur þeirra var að koma rigningarvatni, sem safnast saman á þaki bygginga, í hæfilega fjarlægð frá veggjum bygginga svo það rynni ekki niður múrveggina og ylli skemmdum.