Ítalska hljóm­sveitin Måneskin sendi frá sér yfir­lýsingu í nótt í kjöl­far fregna og fyrir­spurna um að söngvarinn hefði neytt kókaíns í Euro­vision-höllinni í gær.

Maneskin kom, sá og sigraði.
EBU / THOMAS HANSES

„Við erum í raun­veru­legu á­falli yfir því hvað sumt fólk er að segja um að Damiano hafi notað vímu­efni. Við erum MJÖG á móti vímu­efnum og höfum aldrei notað kókaín. Við erum til­búnir að fara í próf, því við höfum ekkert að fela.

Við erum hér til að spila tón­listina okkar og erum svo á­nægð með sigur okkar í Euro­vision og viljum þakka öllum sem studdu okkur. Rokk og ról deyr aldrei. Við elskum ykkur,“ segir í yfir­lýsingunni sem má sjá hér að neðan.

Mynd­band af söngvaranum fór í mikla dreifingu eftir að til­kynnt var um sigurinn en þar sést hann beygja sig yfir borðið þar sem þau sitja í Euro­vision-höllinni.

Síðar um kvöldið, á blaða­manna­fundi, var hann spurður um at­vikið og sagði hann að Tomas, hljóm­sveitar­með­limur hans, hefði brotið glas og sagði svo „Ég nota ekki dóp“.

Ítalía sigraði keppnina með lagi sínu Zitti e buoni en þau hafa ekki sigrað síðan árið 1990. Fyrir það sigruðu þau árið 1964. Sigur­lögin má öll sjá hér að neðan.

Titill lagsins, Zitti e buoni, þýðir Þegiðu og vertu þögul/l.