Ítölsku Eurovision-sigurvegararnir í Måneskin hafa sent frá sér nýtt lag, Ofurfyrirsætuna, eða Supermodel. Sveitin sigraði Eurovision-keppnina sem haldin var í Hollandi í fyrra.

Lagið er fyrsta útgáfa fjóreykisins á þessu ári, en í október gáfu þau út smáskífuna Mammamia.

Það er sænski pródúsera-prinsinn Max Martin sem vinnur lagið með sveitinni. Fyrir þá sem ekki vita er Max Martin maðurinn á bakvið allra stærstu smelli síðustu áratuga. Hann pródúseraði lagið „Baby one more time,“ sem kom Britney Spears á kortið og „I want it that way,“ með Backstreet Boys og „It‘s gonna be me,“ með N*Sync, ásamt fjölda annara laga.

Að sögn meðlima Måneskin er lagið Supermodel innblásið „af þeim fjölmörgu persónum sem þau hittu á meðan þau bjuggu í Los Angeles.“

Sveitin frumflytur lagið annað kvöld, á úrslitakvöldi Eurovision-keppninnar sem fram fer á Ítalíu.

Fréttablaðið verður að sjálfsögðu á svæðinu og flytur ykkur fréttir í beinni lýsingu frá Tórínó.