Torf­hildur Hólm, kölluð Tolla, býr á Höfn í Horna­firði. Flutti þangað með manni sínum, Þor­bergi Bjarna­syni (Bía) fyrir tveimur árum frá Gerði í Suður­sveit. Hún er elst tíu barna hjónanna Ingi­bjargar Zop­honías­dóttur og Torfa Stein­þórs­sonar sem bjuggu á Hala og fagnar sjö­tíu og fimm ára af­mæli á morgun.

Hve­nær manstu fyrst eftir þér, Tolla?

„Það trúa því ekki allir en ég man eftir mér tveggja ára. Þá fór ég með mömmu norður í Svarfaðar­dal að heilsa upp á fólkið okkar þar og man mörg at­riði úr þeirri heim­sókn.“

Heitir þú eftir fyrstu skáld­konu Ís­lands?

„Já, svo er mér sagt. Hún fæddist öld á undan mér og ólst upp í Suður­sveit. Pabbi hennar var prestur á Kálfa­fells­stað. En svo var ég alltaf kölluð Tolla, kannski hef ég byrjað á því sjálf, en þegar ég var nefnd Torf­hildur tók ég voða­legan kipp, það var ein­hver al­vara í því.“

Kynntist þú Þór­bergi vel?

„Já, hann var afa­bróðir minn og var oft á Hala þegar ég var barn og alveg fram á mín full­orðins­ár. Kom á hverju sumri og þau hjónin bæði. Mér fannst þau ekkert voða skemmti­leg þegar ég var minni en þegar ég fékk meira vit kunni ég að meta þau.“

Er þér eitt­hvað minnis­stætt úr sam­skiptum þínum við Þór­berg?

„Það voru auð­vitað blessaðir andarnir sem hann var alltaf að koma með. Það voru nautsandinn og vatns­andinn og margir fleiri sem hann hræddi okkur á. Einu sinni þóttist hann ætla að grafa andana og daginn eftir ætlaði hann svo að fara að vekja þá upp. Þá vafði hann um sig kaðli og gekk niður á túnið með járn­karl í hönd. Við krakkarnir fórum í hum­átt á eftir honum. Svo fór hann allt í einu að öskra og snúast í hringi og Óskar frændi varð svo hræddur að ég hef aldrei séð barn hlaupa eins hratt. Við vorum mis­hrædd, innst inni fannst okkur þetta spennandi.“

Var Hala­heimilið fjöl­mennt í þínum upp­vexti?

„Já, við erum tíu syst­kinin og ég byrjaði snemma að eignast börn með mínum manni. Árið sem mamma fæddi síðasta barnið sitt, eignaðist ég þriðja mitt. Við Bíi bjuggum á Hala fyrst í sam­krulli við for­eldra mína með okkar þrjú litlu börn, þá voru þrjár yngstu systur mínar litlar. Svo voru Steinunn amma og Stein­þór afi líka á heimilinu. Auk þess var mikill gesta­gangur og margir dvöldu daga og vikur yfir sumarið. Það þótti bara sjálf­sagt. Ég hef oft minnst á það við mömmu að það sé merki­legt að hún skyldi halda heilsu með allt sem hún hafði að gera. Svo kom að því að við Bíi fluttum að Gerði, sem er á sömu torfu og Hali, og fórum að búa út af fyrir okkur.“

Hafðir þú gaman af bú­skapnum?

„Já, hann var það skemmti­legasta sem ég vissi, ég hafði svo gaman af skepnunum, bæði kindum og kúm.“

Fannst þér þá ekki erfitt að skilja við sveitina?

„Nei, veistu, þegar við fluttum austur á Höfn fyrir tveimur árum þá fannst mér það ekkert erfitt, það eina sem ég saknaði var garðurinn minn á Gerði. Núna langar mig eigin­lega aldrei að fara vestur í sveit.

Er bara mjög á­nægð hér. Við búum í Ekrunni og höfum hér dýrð­legt út­sýni, allan fjalla­hringinn.“

Hvað eigið þið Bíi af af­kom­endum?

„Við eigum sex börn, ní­tján barna­börn, tíu lang­ömmu og lang­afa­börn og sjö fóstur-barna­börn.“

Er eitt­hvað af þessu fólki í kringum ykkur?

„Bara Bjössi með sína fjöl­skyldu á Gerði, hitt er allt á höfuð­borgar­svæðinu. En tvö syst­kini mín búa hér á Höfn og þrír bræður á Hala. Svo er mamma hér á hjúkrunar­heimilinu, á 97. aldurs­ári.“

Ertu alltaf að yrkja?

„Nei, ég er lítið í því, þó kemur það fyrir. Var eigin­lega búin að fá mig full­sadda af því, því ég var svo oft að yrkja eftir pöntunum, fyrir þorra­blót og hitt og annað.

Hver eru helstu á­huga­málin núna?

„Þau eru mörg. Ég hef gaman af blómum, það er gott pláss hér við húsið og ég var með heil­mikla blóma­rækt þar í fyrra­sumar. Svo les ég mikið og nýt mín við handa­vinnu. Heim­sæki móður mína og sit hjá henni. Ég hef alltaf nóg að gera.“