„Ég er frekar almennilegur að upplagi og reyni bara að vera næs náungi; að koma vel fram við alla og gefa frá mér góða strauma,“ segir Hafnfirðingurinn Arnar Gauti Arnarsson, betur þekktur sem Lil Curly, ein vinsælasta karlkyns TikTok-stjarna lýðveldisins.

„Sem barn og unglingur var ég mikið í íþróttum og langaði að verða atvinnumaður í handbolta og lögfræðingur, en þegar ég byrjaði í framhaldsskóla fann ég löngun til þess að verða frægur og í raun að geta gert eitthvað skemmtilegt með strákunum og konunni og haft það að lifibrauði,“ segir Arnar.

Um tíma átti hann sér líka draum um að verða flugmaður.

„Ég byrjaði í flugnámi en hætti því. Bæði vegna þess að ég sá mikla möguleika í TikTok en líka af því ég er frekar slakur námsmaður. Því lifi ég lífinu núna sem áhrifavaldur í fullu starfi, á TikTok, Instagram og sem plötusnúður þegar það á við.“

Lil Curly er með afslappaðan og óformlegan fatastíl. Hér í flottum Camp-buxum sem hann fann á rölti um Kringluna

Krullurnar koma frá mömmu

Viðurnefnið Lil Curly þekkja allir sem fylgjast með samfélagsstjörnum nútímans hér á landi, en Arnar Gauti er líka með marga fylgjendur utan landsteinanna.

„Krullurnar í hári mínu koma frá mömmu minni sætu, Ólöfu Baldursdóttur, en Lil Curly-nafnið ákvað ég að nota upp á djókið þegar ég stofnaði TikTok-aðgang. Verst var að notendanafnið lilcurly var frátekið á einhverjum óvirkum aðgangi, svo ég heiti lilcurlyhaha á TikTok,“ útskýrir Arnar Gauti, sem er með yfir 100 þúsund fylgjendur í Bandaríkjunum.

Hann segir gefa sér mikið að vera þekktur.

„Ég elska athygli og hef bara gaman af því hversu margir þekkja mig á götum úti. Athyglin er í 99 prósentum tilfella góð og skemmtileg. Ég er sáttur með mitt hlutskipti ef fólk nennir að fylgjast með mér og ég get komið því til að hlæja eða í það minnsta brosa, og ég er mjög þakklátur fyrir að geta lifað á því. Kosturinn við að vera vinsæll á TikTok er að geta gert það sem ég vil á daginn, en ókostirnir eru fólk með lítið sjálfstraust sem finnst leiðinlegt að hafa gaman af lífinu og þarf að vera með stæla,“ segir Arnar Gauti.

Hann framfleytir sér sem áhrifavaldur en segist þó ekki moldríkur enn.

„Maður getur hins vegar orðið mjög ríkur ef maður er ekki fastur á Íslandi. Peningar eru þó ekki aðalatriðið fyrir mig, heldur að „haffa gaman, liffa og njóta“ og vera næs.“

Lil Curly þótti vænt um að vera kallaður Addi Fashion í grunnskóla, en það reyndist vera hið mesta grín. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Kallaður Addi Fashion í grunnskóla

Það var Arnar Gauti Ólafsson sem kenndi Arnari allt sem hann þarf að vita um tísku.

„Gauti er besti vinur minn. Ég bý með honum og Jakobi Jóhanni Veigarssyni, en við höfum allir þrír verið að stússast í þessu saman. Við byrjuðum í sameiningu að gera tilraunir til að verða frægir, til að geta lifað á því að gera einhverja vitleysu. Fyrst vorum við á Instagram með eitthvert tískudót og pældum mikið í því hverju við klæddumst. Svo gekk það ekki og við færðum okkur yfir á YouTube sem gekk ljómandi vel en þar er ekki nógu stór markaður á íslensku. Svo vann ég sem plötusnúður, sem gekk 4/10, en á endanum hoppuðum við á TikTok-vagninn og síðan hefur boltinn rúllað vel,“ segir Arnar.

Hann kveðst ekki hugsa mikið um tísku eða klæðaburð sinn dags daglega. Engu skipti hverju TikTok-stjörnur klæðist en þó taki flíkur oft kipp ef vinsælir áhrifavaldar klæðast þeim.

„Ég fer bara í það sem mér finnst flott og líður vel í, oftast „joggers“ og hettupeysu. Í grunnskóla var ég kallaður Addi Fashion því ég klæddi mig oft mjög einkennilega, fór til dæmis í skólann klæddur leður-joggingbuxum og hlébarðabol með gylltum rennilás, eins og ekkert væri. Það er mín fyrsta minning um að vera flottur í tauinu, og mér þótti vænt um að vera kallaður Addi Fashion en þá var bara verið að gera gott grín að mér,“ segir Arnar og hlær að öllu saman.

Stíllinn hans er afslappaður og óformlegur.

„Fyrir utan hvað ég er litaglaður og nota mikið af skartgripum, oftast úr Kolaportinu og Hagkaup,“ segir Arnar.

Þótt glysgjarn sé hefur hann látið eiga sig að skreyta líkamann með litríku húðflúri.

„Já, neibb, mamma yrði ekki par sátt við mig þá.“

Lil Curly í bleika harða drippinu og Disney-peysunni sem honum er hjartfólgnust í fataskápnum. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Freistar gæfunnar ytra í haust

Arnar Gauti hannaði fatalínuna Curly Merch sem samanstóð af bolum og derhúfum.

„Já, heldur betur. Ég skapaði Curly Merch upp á gamanið og til að sjá hversu margir í útlöndum myndu kaupa og það seldist allt upp á þremur vikum. Þetta var mín önnur fatalína því áður hafði ég gert Flare-fatalínuna með Gauta. Hún var til í nokkur ár og við seldum fullt, en vorum bara ekki nógu klárir né frægir í þá daga til að halda henni áfram. Ég mun halda áfram með annað hvort merkið á næstunni,“ upplýsir Arnar Gauti.

Fram undan er íslenska sumarið í allri sinni dýrð.

„Ég verð heima í sumar til að skemmta mér og reyna að stækka enn meira, en í haust liggur leiðin til Lundúna í eitt ár hið minnsta og vonandi þaðan til Los Angeles. Ég fer með teyminu mínu út, þremur áhrifavöldum, myndatökumanni og umboðsmanni.

Með haustinu ætlar Lil Curly að freista gæfunnar með tveimur öðrum áhrifavöldum, umboðsmanni og tökumanni í London. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Elskar að klæðast jakkafötum

Hver voru fyrstu tískuinnkaupin sem þú gerðir sjálfur, kominn af barnsaldri?

Örugglega þegar ég skrapp í H&M í golfferð suður á Spáni og missti mig alveg þegar ég keypti alla liti af öllu sem mér fannst flott vegna þess að það var svo ódýrt.

Hvaða litur er í dálæti?

Ljósblár og bleikur.

Hver er uppáhaldsflíkin? Og sú dýrasta sem þú átt?

Sú sem ég held mest upp á er bleik og fjólublá Tiedye Psychworlda-peysa, en sú dýrasta er Palm Angels x Vlone-peysa sem vinur minn keypti á 80k í London og ég keypti af honum fyrir 30k.

Finnst þér gaman að klæða þig upp á?

Já, ég elska ekkert meira en að vera í jakkafötum og fínn.

Hvar kaupir þú fötin?

Ég kaupi flest mitt á netinu en það er engin ein síða fyrir innkaupin. Oftast eru einhverjir einstaklingar á bak við fötin sem ég fell fyrir.

Í hvað ferðu þegar þú vilt stela senunni?

Ég á eitt hart bleikt „drip“ sem samanstendur af Disney-peysu, bleikum náttbuxum úr Hagkaup og bleikum Nike-skóm.

Er einhver sem þú dáist að fyrir útlit og tísku?

Ég fylgi nokkrum útlendingum á Instagram og TikTok þaðan sem ég fæ innblástur.

Hvaða skilaboð áttu handa þeim sem enn eru að móta fatastíl sinn?

Það er að fylgja hjartanu og fara í það sem hverjum og einum þykir flott, en ekki í þeim tilgangi að heilla aðra.

Áttu einhverja flík eða fylgihlut sem þér er hjartfólginn?

Já, það er Disney-peysan.

Hvaða frægu manneskju vildirðu helst fara í búðaráp með?

Justin Bieber. Hann gæti kannski splæst.

Fylgist með Lil Curly á TikTok undir nafninu lilcurlyhaha og á Instagram @lilcurlyhaha