Þor­gerður Ása Aðal­steins­dóttir minnist móður sinnar, Önnu Pá­línu Árna­dóttur, með heiðurs­tón­leikum í Frí­kirkjunni í kvöld, fimmtu­dag, í til­efni þess að Anna Pá­lína hefði orðið sex­tug 9. mars. Anna Pá­lína var ein dáðasta vísna­söng­kona Ís­lands en hún lést úr krabba­meini á há­tindi ferils síns 2004, að­eins 41 árs að aldri.

„Það var ein­hvern tíma í nóvember sem ég fór að huga að þessum tón­leikum og hugsaði með mér að mig langaði að minnast hennar með ein­hverjum hætti,“ segir Þor­gerður Ása.

Á tón­leikunum í Frí­kirkjunni mun Ása flytja valin lög af hljóm­plötum móður sinnar en með henni leika þeir Gunnar Gunnars­son á píanó, Jón Rafns­son á kontra­bassa og Pétur Grétars­son á slag­verk, sem störfuðu allir náið með Önnu Pá­línu. Gesta­söngvarar á tón­leikunum eru söng­konan Guð­rún Gunnars­dóttir, ein nánasta vin­konu Önnu Pá­línu, og Álf­grímur Aðal­steins­son, bróðir Ásu.

„Við héldum tón­leika fyrir tíu árum þegar hún hefði orðið fimm­tug en þá var ég mjög feimin við þennan saman­burð og að setja mig í hennar spor og vildi til dæmis alls ekki syngja með hljóm­veit. Ég var bara ein með gítar og söng eitt lag sem var mjög gaman og þar kom fram fjöldi lista­manna. Í þetta sinn langaði mig að gera eitt­hvað per­sónu­legra og hafa bara flytj­endur sem tengdust henni.“

Gaf út átta plötur

Anna Pá­lína náði miklum frama í tón­list þrátt fyrir stuttan feril og gaf alls út átta plötur í ó­líkum stílum, þar af nokkrar með eigin­manni sínum og föður Ásu, Aðal­steini Ás­berg Sigurðs­syni.

„Hún samdi ekki mikið sjálf, ég held að hún hafi samið eitt eða tvö lög en þetta eru allt lög af plötunum hennar sem við flytjum. Hún gaf út átta plötur, þar af tvær barna­plötur sem verða ekki með í prógramminu, þannig þetta verða lög af sex plötum,“ segir Ása.

Fórstu í gegnum allan kata­lóginn hennar þegar þú valdir lög á tón­leikana?

„Já, ég byrjaði á því að skrifa niður þau lög sem voru mér efst í huga en svo bara skoðaði ég plöturnar og valdi af þeim, svona mis­mikið af hverjum diski. Þessi diskar eru náttúr­lega allir svo ó­líkir, þetta er vísna­tón­list en svo er líka djassplata, þjóð­lagaplata og sálma­plata, þannig að þetta er mikil blanda. Mér finnst mjög erfitt að gera upp á milli þessara platna en ég held mikið upp á plötuna Guð og gamlar konur og lagið Skamm­lausa gamla konan.“

Anna Pálína Árnadóttir var ein dáðasta vísnasöngkona landsins en hún lést á hátindi ferils síns árið 2004, aðeins 41 árs að aldri.
Fréttablaðið/Vilhelm

Fær ekki flúið ör­lögin

Þor­gerður Ása segist áður hafa forðast saman­burðinn við móður sína en þó er ljóst að þær mæðgurnar hafa farið svipaða leið í lífinu. Ása er til að mynda sjálf vísna­söng­kona auk þess sem hún starfar við dag­skrár­gerð á Ríkis­út­varpinu líkt og móðir hennar gerði á árum áður.

„Maður fær kannski ekki flúið ör­lög sín að ein­hverju leyti,“ segir Ása og hlær. „Ég strögglaði svo­lítið við að koma út úr söng­skápnum þarna fyrir rúmum tíu árum en ég er komin yfir það. Söngurinn kallaði á mig og svo líka út­varpið, það var bara ein­hvern veginn þannig.“

Pökkuðu inn plötum saman

Fjöl­skylda Ásu er mjög tón­elsk en faðir hennar Aðal­steinn Ás­berg er skáld og tón­listar­maður og samdi mikið af lögunum sem Anna Pá­lína söng á ferli sínum. Þá eru báðir bræður hennar einnig í tón­list, þeir Árni Húmi og Álf­grímur sem kemur fram á tón­leikunum með systur sinni.

„Pabbi á náttúr­lega meiri­hluta efnisins sem er á tón­leikunum, hann samdi svo mikið af lögunum sem hún flutti. Ég ólst upp við að fara á tón­leika með þeim og svo vorum við náttúr­lega með litla barna­þrælkunar­verk­smiðju í kjallaranum þar sem við vorum látin pakka inn geisla­diskum,“ segir Ása kímin en faðir hennar rekur bóka- og tón­listar­út­gáfuna Dimmu.

„Þetta voru miklar gæða­stundir þar sem öll fjöl­skyldan sat saman og þetta var svona færi­band þar sem við pökkuðum inn plötum. Einn setti geisla­diska í, annar bæklinga, næsti lokaði og svo fram­vegis. Þetta eru mjög dýr­mætar minningar og við fengum nú borgað smá, nokkrar krónur á plötu.“

Það er þessi hug­mynd að maður klári að vinna úr sorginni en svo ein­hvern veginn læðist hún aftan að manni, sem er bara fal­legt.

Fylgir manni alla ævina

Það hljóta að vera ljúf­sár tíma­mót að fagna af­mæli móður þinnar?

„Þetta fylgir manni alla ævina. Maður heldur ein­hvern veginn að þetta sé frá og það er þessi hug­mynd að maður klári að vinna úr sorginni en svo ein­hvern veginn læðist hún aftan að manni, sem er bara fal­legt. Ég vildi fyrst hafa tón­leikana á af­mælis­degi hennar 9. mars en það vildi þannig til að hvorki bróðir minn né pabbi minn voru á landinu þannig við á­kváðum að hafa þá viku seinna og það var mjög rétt. Þá gat maður leyft sér að vera við­kvæmur þann dag og svo fer tón­leika­dagurinn bara í fögnuð.“

Finnst þér móðir þín hafa fylgt þér í gegnum lífið?

„Já, mamma náttúr­lega hafði ó­trú­lega mikil á­hrif á mig og hvatti mig til þess að syngja og lesa upp. Áður en hún lést voru hún og móðir hennar mínir helstu þjálfarar fyrir Stóru upp­lestrar­keppnina í grunn­skóla,“ segir Ása sem vann undan­keppnina í sínum skóla og lenti í þriðja sæti aðal­keppninnar.

Við­brögðin hafa ekki látið á sér standa og kveðst Ása vera að í­huga að bæta við auka­tón­leikum.

„Það selst svo vel þannig það eru ýmis teikn á lofti um að við gætum þurft að bæta við tón­leikum. Ég hlakka mikið til að flytja þessi lög og vona að þetta verði bara ó­trú­lega gaman.“