Fjórar fræknar knattspyrnusystur spila allar fótbolta með Val, þar af þrjár í meistaraflokki kvenna og sú yngsta í 3. flokki. Þær eiga ekki langt að sækja hæfileika sína með fótboltann því móðir þeirra er knattspyrnugoðsögnin Guðrún Sæmundsdóttir úr Val.

Systurnar eru Eiríksdætur og heita eftir aldursröð: Málfríður Anna, Hlín, Arna og Bryndís.

„Við erum allar sammála um að hafa snemma viljað feta í fótsporin hennar mömmu,“ segja systurnar einum rómi, en Guðrún móðir þeirra er fyrrverandi afrekskona í Val, spilaði 104 leiki með meistaraflokki, þar sem hún skoraði 28 mörk fyrir Val, og 36 landsleiki á knattspyrnuferlinum, þar sem hún þrumaði boltanum fjórum sinnum í netið fyrir Íslands hönd.

„Það hefur alltaf verið mjög skemmtilegt fyrir okkur að vita af því hvað móðir okkar var góð knattspyrnukona og það hefur klárlega gert okkur að enn betri íþróttakonum að hafa getað leitað í reynslubankann hennar,“ segja systurnar kátar.

Málfríður, sem er 23 ára, og Hlín, sem er tvítug, hafa í nokkur ár spilað saman með meistaraflokki Vals og árið 2020 bættist Arna, sem nú er átján ára, í hóp meistaraflokks.

„Dýrmætasta veganestið sem mamma gaf okkur út í fótboltann með Val er að gefast aldrei upp og berjast áfram í mótlæti,“ eru systurnar sammála um.

Þær segja vitaskuld mikið rætt um fótbolta á heimilinu.

„En við erum svo málgefin hvort eð er að við getum talað um ótal margt annað en fótbolta heima, enda eigum við fullt af öðrum áhugamálum,“ segja þær hressar.

Gaman að spila leikina saman

Samfylgdin með Val er orðin löng. Málfríður og Hlín hafa æft með Val frá því þær byrjuðu barnungar í fótbolta, sex ára gamlar, en Arna skipti úr Víkingi Reykjavík yfir í Val árið 2019 og Bryndís, sú yngsta í systrahópnum, árið 2020, en hún er fimmtán ára.

„Þegar við vorum yngri spiluðum við systurnar endalaust fótbolta saman en það er minna um það í dag. Hins vegar æfum við mikið saman utan hefðbundinna æfingatíma,“ segja þær.

Allar hafa Eiríksdætur unnið marga sæta sigra í boltanum, bæði persónulega og með sínum liðum.

„Upp úr stendur þó besta minningin úr fótboltanum árið 2019 þegar Valur varð Íslandsmeistari, og svo var auðvitað ótrúlega gaman að vera þrjár systur að spila saman meistaradeildarleiki árið 2020,“ segja meistaraflokkskonurnar Málfríður, Hlín og Arna.

Jafnréttismál í forgangi

Systurnar Eiríksdætur eru stoltar af því að vera Valskonur og þeim líður einstaklega vel með liðum sínum á Hlíðarenda.

„Valur er risastórt félag sem er gaman að vera partur af. Það að vera Valsari hefur þá merkingu fyrir okkur systur að leggja sig alltaf 100 prósent fram í Vals-treyjunni, sýna ávallt af okkur íþróttamannslega framkomu og umfram allt, að hafa gaman.“

Hlíðarendi, heimavöllur Vals, hefur svo haldið utan um systurnar af öryggi, kappsemi og hlýju alla tíð.

„Stemningin á Hlíðarenda er oftast gríðarlega góð. Á daginn er þar yfirleitt mikið líf og fjör, og það er mjög hvetjandi að æfa innan um svo margt frábært íþróttafólk.“

Þær Málfríður, Hlín, Arna og Bryndís eru glæsilegir fulltrúar Vals og vilja koma á framfæri hugheilum árnaðarkveðjum og óskum félaginu sínu til handa á 110 ár afmæli þess.

„Við óskum félaginu sem við elskum hjartanlega til hamingju með 110 árin og vonum að Valur muni halda áfram að vaxa og dafna á komandi árum, og hlúi ætíð vel að jafnréttismálum.“