„Ég vaknaði um daginn með hugmyndina um skærappelsínugulan himin á bak við grá ský. Þá bara fer sú hugmynd hreinlega ekki fyrr en ég er búin að koma henni á einhvers konar flöt.“

Svona byrja mörg málverk Karenar. „Verkin byrja oft sem hugmynd um liti og framsetningu þeirra. Byrjunin segir oftast ekkert um niðurstöðuna hjá mér. Ég bara veð í verkið og leyfi hlutum að stjórnast af mínu skapi, geði og almennri nennu hverju sinni. Sá miðill sem heillar mig hverju sinni, samspil flatarins með miðlinum og það hvernig mér þykir best að koma litunum og tilfinningunum frá mér í hvert sinn, hefur allt áhrif,“ segir Karen.

Karen lauk tveggja ára diplómanámi í málaralist frá Myndlistarskólanum í Reykjavík. Þá er hún einni BA-ritgerð frá því að útskrifast með bakkalárgráðu í félagsfræði, með ensku sem aukagrein. Ásamt því að mála starfar hún sem verkefnastjóri hjá Rauða krossinum með tvö félagsleg verkefni á sínum snærum: Hundavini og Símavini. „Einnig sé ég um vinahóp sem nefnist Föt sem framlag,“ segir hún.

Manneskjur eru fjársjóður

„Tilfinningaleg úrvinnsla á sér ótrúlega oft stað í gegnum það verk sem ég fæst við hverju sinni. Samtöl og hugleiðingar veita mér líka oft mikinn innblástur sem og veðrið. Litir í umhverfi mínu kveikja líka í mér, og því átakanlegri, því skemmtilegri. Það gerist einhver galdur þegar þeir reyna á sjónina, eins og neonlitir eða í skrítnum litasamsetningum. Þegar sumir litir eru settir saman fara augun að hristast, eins og finna má í verkum JBK Ransu og Davíðs Arnar. Þetta eru svona „mígrenilitir“ eins og einhver kallaði þá.

Ég hef líka óbilandi áhuga á fólki og finnst fátt skemmtilegra en að fá innsýn í það hvaða manneskju fólk hefur að geyma. Þvílíkur fjársjóður sem manneskjan er með allar sínar upplifanir, reynslu og minningar.“

Verkið er frá 2021 og heitir Gömul og ný sjálfsmynd. Olía og pastel á striga. Karen er óhrædd við að nota liti í verkum sínum. Myndir/aðsendar

Málverkið ómetanlegt tannhjól

„Ég er að fylgja djúpri þörf til að koma hlutum út úr hausnum á mér. Ég nota mikið striga, en mála líka á fundið efni, strekki upp gróf efni, tek í sundur borð eða ríf bakhlið af myndaramma og mála á hann. Flöturinn gefur mér hugmynd um nálgunina. Gróft undirlag krefst kannski nákvæmni í því hvernig ég hleð lit niður og fleira.

Ef ég skapa ekki, festist ég of mikið í hausnum á mér og aðrir hlutir fara að hiksta í lífinu mínu. Ég næ einhverri tengingu við tilfinningar mínar gegnum málverkið sem ég á erfitt með að gera í daglegu lífi. Málverkið er því fyrir mér ómetanlegt tannhjól í sirkusnum sem hausinn á mér getur verið.“

Barnið, ég, heitir þetta áhrifaríka verk frá 2021 sem málað er á bakhlið borðplötu.

Þá var eins og holskefla af sköpunarkrafti hefði læðst inn í sálina hjá mér og hefur ekki farið frá mér síðan.

Hennar eigið tungumál

Myndlistaráhuginn kom af fullum krafti hjá Karen upp úr tvítugu en hafði þó loðað við hana frá blautu barnsbeini. „Ég hef alltaf heillast af myndrænni túlkun og tjáningu gegnum teikningu, ljósmyndir eða málverk. Upp úr tvítugu fór ég að skilja betur að fólk gæti fengist við þetta sem atvinnu. Þá var eins og holskefla af sköpunarkrafti hefði læðst inn í sálina hjá mér og hefur ekki farið frá mér síðan. Ætli ég sé nú ekki búin að vera að mála af einhverju viti í um áratug?“

En af hverju málverkið?

„Málverkið krefst einskis af mér. Það gefur mér færi á að toga það og teygja í þær áttir sem mér sýnist. Ég er hrifin af því að blanda saman miðlum og málverkið gefur mér frelsi í minni tjáningu sem ég hef ekki upplifað annars staðar. Svolítið eins og mitt eigið tungumál.

Ég hef alltaf fylgst eitthvað með málaralistinni. Skemmtilegast finnst mér að skoða verk sem segja sögu viðfangsefnisins eða málarans. Það getur verið í gegnum litanotkun, áferðir eða í nálgun þeirra á fletinum sjálfum. Ég leita aftur og aftur til Alice Neel og líka Van Gogh ef mig skortir innblástur. Ég dáist að einlægum áhuga þeirra á því að túlka fólkið í sínu nærumhverfi.

Ég er líka mjög hrifin af íslensku listasenunni og það er ómögulegt að velja bara einn uppáhalds. En ég verð í það minnsta að nefna Kristínu Gunnlaugs, Jakob Veigar Sigurðsson, Freyju Eilífu, Kristínu Morthens og svo auðvitað JBK Ransu.“

Litir og samspil þeirra heilla Karen. Verkið nefnist Hreyfikraftur lita. 2021.

Ég vil helst sjá hlutina þróast fyrir framan mig og því er hugmyndin oft langt því frá að vera fastmótuð eða tilbúin þegar ég legg af stað á fletinum. Stíllinn minn hreyfist svo með þessum innri æsingi.

Skvettumóment í öllum miðlum

„Expressíf/fígúratíf, ætli það nái ekki ágætlega utan um minn stíl?“ segir Karen þegar hún er beðin um að lýsa stílnum sínum. „Ég er svolítið út um allt: mjög fígúratíf en hallast einnig í abstraktið. Ég vil helst sjá hlutina þróast fyrir framan mig og því er hugmyndin oft langt því frá að vera fastmótuð eða tilbúin þegar ég legg af stað á fletinum. Stíllinn minn hreyfist svo með þessum innri æsingi. Ef mér finnst þurfa að nota raunsæja nálgun á einum stað en klessu annars staðar á verkinu, þá geri ég það án þess að festa mig í fyrir fram ákveðnum hugmyndum um stíl eða samræmi.

Ég mála mest í akríl og olíu, en er ekki bundin við þá miðla. Litir og áferðir eru mér sérlegt áhugamál og ég prófa mig áfram í þær áttir sem ólíkir miðlar toga mig hverju sinni. Ég skissa mikið í vatnslitum og finnst gaman að hlaða með misþykkum lögum af lit/pigmenti á mismunandi undirlag. Þar sem ég er ör kona hrífst ég af því hve vasklega ég get gengið til verks við akrýlverk. Landslagsverk eða abstrakt ganga því oft hratt hjá mér þegar ég byrja.

Fígúratífar myndir með raunsæisívafi mála ég oftast í olíumálningu eða pastel. Mér finnst betra að einbeita mér að smáatriðunum í gegnum mýkt olíunnar. En ég á líka alveg skvettumóment þar í formi skítugra lita, því ég nenni sjaldan að þrífa penslana almennilega á milli.“

Áferðin er í aðalhutverki í þessu verki frá 2021 og heitir Tristan og kýr.

Agi til að fylgja verkum eftir, líka þegar ég er andlaus. Því þá gerast samt oft magnaðir hlutir.

Tími til að kveikja neistann

Málverk Karenar fæðast í stúdíóinu, sem staðsett er í einu herbergi heimilisins. „Þetta er lítið herbergi en nægir mér. Frjálst aðgengi er lykilatriði í því að ég geti haldið áfram að skapa og ég verð hreinlega að hafa þetta inni á heimilinu, eins og staðan er hjá mér í dag. Ég legg það í vana minn að mála lítið í einu, en alltaf eitthvað. Vinna hægt en örugglega að því sem kveikir lífsneistann í hjartanu, helst þrisvar í viku, en það fer eftir álaginu. Þegar börnin eru komin upp í rúm eftir kvöldmat, sest ég inn í stúdíóið áður en ég fer sjálf að sofa. Þá get ég unnið í eina til þrjár klukkustundir.

Sem móðir í hundrað prósent starfi þarf ég gott skipulag og aga. Aga til að fylgja verkum eftir, líka þegar ég er andlaus. Því þá gerast samt oft magnaðir hlutir. Við eigum það nefnilega til að búa til tíma fyrir það sem raunverulega skiptir okkur máli. Í mínu tilfelli er forgangsröðunin nokkuð skýr og hef ég tileinkað mér ágætis kerfi svo þessir hlutir gangi upp.“

Þetta landslag hefur ekki hlotið nafn ennþá og er frá 2021.

Lofar litum

Karen verður með einkasýningu á verkum sínum í menningarhúsinu í Spöng/bókasafninu í nóvember. Einnig stefnir hún á aðra sýningu á fyrri hluta næsta árs á höfuðborgarsvæðinu. „Það væri afar ánægjulegt ef áhugasöm myndu gera sér ferð og líta á þau verk sem þar verða til sýnis. Ég lofa litum, það klikkar yfirleitt ekki,“ segir hún að lokum. Hægt er að skoða verk Karenar á vefsíðu hennar karenbjorgjohanns.com og Instagram: @karenartwork.

Sjálfsmynd unnin með akrýl, olíu og olíupastel. Frá 2017.