Fjöruáhrif er einkasýning Hauks Dórs Sturlusonar í Galleríi Fold og stendur til 13. febrúar. Þar sýnir Haukur Dór 23 akrýlmyndir frá síðustu þremur árum.

„Það er eitt og annað sem gerist í kollinum á manni sem maður getur ekki beinlínis skýrt,“ segir Haukur Dór spurður um myndirnar. „Ég byggði mér einu sinni vinnustofu í fjörunni á Álftanesi og síðan hefur fjaran smokrað sér inn í myndir mínar öðru hvoru án þess að ég viti af því. Þess vegna kalla ég þessa sýningu Fjöruáhrif. Ég skilgreini myndirnar þó ekki endilega sem fjörumyndir en þó má oft sjá þar sker og vatn, þannig að við getum kallað þetta fjöruáhrif.“

Haukur Dór er enn með vinnustofu við hafið, í Bryggjuhverfinu. Hann segir hafið alltaf hafa heillað sig en sem ungur maður var hann sjómaður.

Hann segist ekki mála með sýningar í huga. „Mér finnst leiðinlegt að standa í sýningum, það fylgir því svo mikið vesen og það á ekki við mig að vera í margmenni, ég er nokkuð einrænn. En þessar elskur í Galleríi Fold hafa verið ótrúlega hjálplegar og ég er þeim mjög þakklátur.“

Hann varð áttræður á síðasta ári og er búinn að stunda list sína í áratugi. „Það er búið að ganga misjafnlega á þessum tíma. Yfirleitt er þetta bölvað hark,“ segir hann. Spurður hvernig sé að vera listamaður á COVID-tímum segir hann: „Það er mjög erfitt. Ég hef haft fyrir sið að bjóða fólki á vinnustofu mína, fólk hefur haft gaman af að kíkja þar við. Það hefur gengið ágætlega að selja verkin og þannig hef ég haft tekjur. Þetta hef ég ekki getað gert í tæpt ár. Þetta ástand hefur dregið nokkuð úr sköpunargleði minni. Maður er mikið einn og þornar svolítið upp af því.“

Haukur Dór er þekktur fyrir málverk sín og kröftugan teiknistíl en einnig fyrir keramik sem hann gerir þó ekki lengur. „Ég var orðinn slæmur í baki og gat ekki lengur setið við rennibekkinn. Þar þarf maður að sitja skakkur og ég var hættur að þola það,“ segir hann og bætir við: „Í list minni er málverkið númer eitt hjá mér og hefur alltaf verið.“