Sjálfs­mynd eftir mexí­kóska lista­manninn Fridu Kahlo seldist í gær á upp­boði í Sot­heby‘s upp­boðs­húsinu í New York fyrir 34.9 milljónir Banda­ríkja­dollara, eða rúmar 4.600 milljónir ís­lenskra króna.

Um er að ræða hæsta upp­boðs­verð sem verk eftir lista­mann frá rómönsku-ameríku hefur verið selt á. Fyrra metið var lista­verk eftir Diego Rivera, eigin­mann Fridu Kahlo, sem seldist á 9.76 milljónir Banda­ríkja­dala árið 2018.

Verk Kahlo ber titilinn Diego y Yo, eða Diego og ég, og er ein af hennar síðustu sjálfs­myndum frá árinu 1949. Á verkinu má sjá Kahlo með tár í augum og eigin­mann hennar Diego Rivera málaðan á enni hennar.

Verkinu var lýst af Sot­heby‘s sem einu þýðingar­mesta verki Kahlo sem boðið hefur verið upp.

Kaupandinn er argentínski fast­eignafrömuðurinn Edu­ar­do F. Cosantini sem er einn ötulasti lista­verka­safnari heims og stofnandi lista­safns í heima­landi sínu Argentínu.

Mál­verkið var síðast selt á upp­boði árið 1990, þá fyrir 1.4 milljónir Banda­ríkja­dala.

Kahlo er einn þekktasti lista­maður 20. aldarinnar og var hún einna þekktust fyrir sjálfs­myndir sínar sem ein­kennast af ó­væginni tjáningu á bar­áttu lista­mannsins við sjúk­dóma og erfið­leika í sínu lífi.