Í dag verður haldið mál­þing um skáldið Þor­stein frá Hamri í Há­tíðar­sal Aðal­byggingar Há­skóla Ís­lands. Mál­þingið er á vegum Bók­mennta- og list­fræða­stofnunar Há­skóla Ís­lands, Stofnunar Árna Magnús­sonar í ís­lenskum fræðum og fé­lagsins Arfur Þor­steins frá Hamri.

Þor­steinn frá Hamri er á­litinn eitt merkasta ljóð­skáld Ís­lands fyrr og síðar og sendi frá sér á þriðja tug ljóða­bóka auk skáld­sagna og bóka með sagna­þáttum. Allt frá því hann gaf út sína fyrstu ljóða­bók, Í svörtum kufli, árið 1958 mótaði hann og fágaði ljóð­stíl sinn af ein­stakri natni, ást­ríðu og þekkingu á sögu, tungu og sam­fé­lagi.

Oft er talið að honum hafi tekist einkar vel að bræða saman hina gömlu ljóða­hefð og stíl­brögð nýrrar aldar, ljóð­mál módern­ismans. Þor­steinn frá Hamri lést árið 2018, 79 ára að aldri.

Ellefu fyrir­lesarar, bæði rit­höfundar og fræði­menn, fjalla um fram­lag Þor­steins frá Hamri til ís­lenskrar tungu, bók­mennta og þjóð­legra fræða. Flest erindin snúa að ljóð­list Þor­steins en skáld­sögur hans og fram­lag til þjóð­legs fróð­­leiks verða einnig til um­ræðu.

Á meðal fyrir­lesara eru Ást­ráður Ey­steins­son bók­mennta­fræðingur, Sigur­björg Þrastar­dóttir ljóð­skáld, Guð­rún Nor­dal for­stöðu­maður Árna­stofnunar, Ár­mann Jakobs­son prófessor og rit­höfundur og Haukur Ingvars­son bók­mennta­fræðingur og skáld. Með um­sjón mál­þingsins fara Guð­rún Nor­dal og Ást­ráður Ey­steins­son. Dag­skráin hefst klukkan 10 og henni lýkur rúm­lega 17. Mál­þingið er öllum opið og að­gangur ó­keypis.