Dagana 24. til 26. nóvember verður haldið málþing og viðburðir í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, undir yfirskriftinni KvikMyndlist.
Umræðuefni málþingsins eru mörk kvikmynda og lista, varðveisla og miðlun kvikra og stafrænna miðla á söfnum og þær áskoranir sem felast í því. Ráðstefnan tengist safneign og sýningarhaldi í Listasafni Reykjavíkur, sem og fyrirhugaðri verðlaunahátíð Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna í desember.
Listasafn Reykjavíkur varðveitir nú viðamikið safn kvikra verka og ekki úr vegi þegar slík hátíð kemur til landsins að líta inn á við og skoða þær tengingar sem liggja fyrir.
Að sögn Listasafnsins er mikill fengur í að fá bæði fagaðila um varðveislu kvikmynda og listamenn til að sýna afrakstur vinnu sinnar og hvetja til frekari umræðu og rannsókna á þessu sviði.
Á meðal þeirra sem koma fram á málþinginu eru Sigurður Guðjónsson listamaður, Gunnþóra Halldórsdóttir, verkefnastjóri varðveislu og rannsókna hjá Kvikmyndasafni Íslands, Jina Chang hjá Nasjonalmuseum í Osló, Joshua Reiman myndlistarmaður og Ásta Fanney Sigurðardóttir, skáld og myndlistarmaður.