Næst­komandi fimmtu­dag, 2. febrúar, fer fram mál­þing um Leik­listar­skóla SÁL í Lands­bóka­safni Ís­lands undir yfir­skriftinni Kyndil­berar á kyndil­messu – Sam­tal um sögu og til­urð Leik­listar­skóla SÁL.

Um þessar mundir er því fagnað að 50 ár eru liðin frá því að Leik­listar­skóli SÁL hóf göngu sína en skólinn var settur á stofn í kjöl­far þess að sam­tök á­huga­fólks um leik­listar­nám (SÁL) voru stofnuð til þess að þrýsta á ríkis­valdið að stofna leik­listar­skóla. Leik­listar­skóli SÁL var rekinn af nem­endum sem stunduðu nám við skólann og þótti merki­legt fram­tak á sínum tíma. Skólinn var starf­ræktur í þrjú ár, frá 1972 til 1975, og var lagður niður þegar Leik­listar­skóli Ís­lands var stofnaður 1975.

Tíma­mótanna hefur verið minnst með marg­vís­legum hætti og síðasta haust var til að mynda opnuð sýning í Lands­bóka­safni Ís­lands sem saman­stendur af ýmsum gögnum og munum frá sögu SÁL. Sýningin var opnuð í októ­ber 2022 og hefur verið fram­lengd til 26. mars 2023.

Mál­þingið fer fram fimmtu­daginn 2. febrúar á milli 16.00 og 18.00 í Lands­bóka­safni/Þjóðar­bók­hlöðu. Fundar­stjóri er Lísa Páls­dóttir, leikari og dag­skrár­gerðar­maður, en meðal þeirra sem koma fram eru Lilja Dögg Al­freðs­dóttir, menningar- og við­skipta­ráð­herra, Viðar Eggerts­son, leikari og fyrr­verandi leik­hús­stjóri, Ingi­björg Sól­rún Gísla­dóttir, fyrr­verandi borgar­stjóri og ráð­herra, og Ása Helga Proppé Ragnars­dóttir, aðjúnkt emeritus við Há­skóla Ís­lands. Öllum er boðið að koma, hlusta og njóta en að lokinni dag­skrá verður mót­taka í Þjóðar­bók­hlöðu.