Næstkomandi fimmtudag, 2. febrúar, fer fram málþing um Leiklistarskóla SÁL í Landsbókasafni Íslands undir yfirskriftinni Kyndilberar á kyndilmessu – Samtal um sögu og tilurð Leiklistarskóla SÁL.
Um þessar mundir er því fagnað að 50 ár eru liðin frá því að Leiklistarskóli SÁL hóf göngu sína en skólinn var settur á stofn í kjölfar þess að samtök áhugafólks um leiklistarnám (SÁL) voru stofnuð til þess að þrýsta á ríkisvaldið að stofna leiklistarskóla. Leiklistarskóli SÁL var rekinn af nemendum sem stunduðu nám við skólann og þótti merkilegt framtak á sínum tíma. Skólinn var starfræktur í þrjú ár, frá 1972 til 1975, og var lagður niður þegar Leiklistarskóli Íslands var stofnaður 1975.
Tímamótanna hefur verið minnst með margvíslegum hætti og síðasta haust var til að mynda opnuð sýning í Landsbókasafni Íslands sem samanstendur af ýmsum gögnum og munum frá sögu SÁL. Sýningin var opnuð í október 2022 og hefur verið framlengd til 26. mars 2023.
Málþingið fer fram fimmtudaginn 2. febrúar á milli 16.00 og 18.00 í Landsbókasafni/Þjóðarbókhlöðu. Fundarstjóri er Lísa Pálsdóttir, leikari og dagskrárgerðarmaður, en meðal þeirra sem koma fram eru Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, Viðar Eggertsson, leikari og fyrrverandi leikhússtjóri, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi borgarstjóri og ráðherra, og Ása Helga Proppé Ragnarsdóttir, aðjúnkt emeritus við Háskóla Íslands. Öllum er boðið að koma, hlusta og njóta en að lokinni dagskrá verður móttaka í Þjóðarbókhlöðu.