Myndlistarkonan Regína Magdalena teiknar og málar með olíu á vinnustofu sinni á Korpúlfsstöðum þar sem hún leyfir verkunum að njóta sín í galopnu rými Hlöðuloftsins á sýningu sem verður opnuð í dag.

Verk Regínu eru alls konar en ítölsk áhrif og litir eru áberandi enda taugar hennar og tengingar við Ítalíu og þá sérstaklega Napólí sterkar.

Regína Magdalena er með sterkar tengingar við Ítalíu eins og mörg verkanna á sýningu hennar á Korpúlfsstöðum bera með sér.

„Ég er fædd í Reykjavík 1968 en fór fyrst til Ítalíu þegar ég var sautján ára og bjó í Napólí í sjö ár. Það er svo mikil list þarna úti og listaverk að maður bara sogar þetta allt í sig og ég drakk þetta svolítið í mig,“ segir Regína, um þann ítalska anda sem svífur yfir Korpúlfsstöðum með verkum hennar.

„Ég heillaðist bara strax, þegar ég var lítil stelpa að skoða listaverkabækur, af þessum alvöru meisturum frá Ítalíu. Michelangelo, Leonardo og hvernig þeir nota litina. Þessir rauðu litir. Það eru svona ákveðnir litir sem eru sýnilegir í þessum málverkum þarna úti.“

Hver vegur frá Napólí …

Þegar Regína kom heim til Íslands eftir Ítalíuárin sjö var hún í raun þegar á leiðinni aftur til Napólí. „Þegar ég kom heim fór ég fyrst á listasvið FB þar sem ég ætlaði að henda í möppu og fara aftur til Ítalíu,“ segir Regína um námsáformin, sem áttu eftir að taka nokkra útúrdúra áður en hún endaði þar sem hún ætlaði sér í Accademia di belle arti í Napólí.

„Ég fór af listasviði FB í áframhaldandi nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, en þessi mikla tenging mín við Ítalíu leiddi mig að lokum aftur til Napólí að mála í Akademíunni þar.

Gluggar Regínu vísa í ýmsar áttir.

Ég ætlaði alltaf að fara þarna en lífið er bara einhvern veginn þannig að ég fór, en ekki á mínum tíma,“ segir Regína sem horfir á lífið sem einhvers konar tímalínu sem liggi alla veganna.

Tímalínur lífsins

„Við sjáum eitthvað á línunni okkar eins og kannski að ég ætlaði í skóla þarna. Það var eitthvað sem ég sá á minni tímalínu en sá ekki alveg hvenær. Þú veist, stundum ætlum við að fara eitthvað sem er langt fram í tímann og klessum á alls konar á leiðinni,“ heldur Regína áfram og bendir á að hún fáist meðal annars við tímalínur í list sinni og að eitt verkanna á sýningunni heitir meira að segja Tímalína.“

Regína segir aðspurð að verkin á sýningunni séu hálf tímalaus. „Ég setti engan tíma á hana. Talandi um að vera í einhverri tímalínu,“ segir hún og hlær. „Ég til dæmis er að taka verk sem ég byrjaði á einhvern tímann og klára ekki fyrr en kannski bara í sumar.

Áhrifa klassíska, ítalska málverksins gætir í litum, áferð og formum verka Regínu sem þó endurspegla einnig stundum íslenska dulúð og hulduheima.

Þú ert kannski með plan, eins og þegar ég var lítil stelpa og ætlaði bara að mála, en svo bara kemur lífið með önnur plön. Þannig að myndirnar eru sumar alveg frá 2004 og bara til dagsins í dag.“

Sýning Regínu Magdalenu verður opnuð á Hlöðulofti Korpúlfsstaða klukkan 14 í dag og aðgangur er ókeypis.