Margir kannast við að hafa lesið um að klósettsetan sé almennt hreinni en hinn dæmigerði snjallsími. Þá eru hendur og munnar sögð óhreinustu svæði líkamans. Það breytir því þó ekki að það er fátt ef nokkuð jafn ógeðfellt og óhrein og illa lyktandi salerni auk þess sem hendur koma vissulega töluvert við sögu á salernum. Og það í bland við líkamsvessa. Sumsé banvæn blanda.

Snertifletir og snyrtingar

Þetta þarf ekki að vera flókið. Ef að fólk hyggst ganga örna sinna en treystir sér ekki til að ganga úr skugga um að skilja ekki eftir saurleifar í skálinni þá er til dæmis hægt að leggja eitt eða svo pappírsbréf í skálina þannig að úrgangurinn sitji ekki eftir og bíði næsta manns.

Þá er einnig mjög snjallt, ef að athöfnin er að taka lengri tíma en æskilegt er í sameiginlegu rými, að sturta niður reglulega svo að daunninn nái síður að festa sig í andrúmsloftinu sem tekur á móti næstu manneskju. Það er líka hyggilegt og hugulsamt að taka með sér einhverskonar ilmsprey til að geta gripið í þegar þörfin kallar, fyrir sjálfa/n þig og aðra.

Ekki er síður áríðandi að skilja ekki eftir þvagslettur en ákjósanlegast væri auðvitað ef hver og einn myndi auk þess spritta setuna eftir hverja notkun. Núna þarf líka að sjálfsögðu að huga sérstaklega að handþvotti ásamt því ganga vel um vaskinn, blöndunartækin, sápudæluna, ljósrofann og hurðarhúninn.

Ávallt skal gæta þess að skilja sem minnst ummerki eftir, því af ummerkjum og aðkomu skal fólk, réttilega, dæmt. Dæmi eru um að fólk hafi jafnvel endað á því að þrífa úrgangsleifarnar eftir manneskjuna á undan einfaldlega svo að næsta manneskja telji viðkomandi ekki sökudólginn. Þetta þarf ekki og ætti ekki að vera svona.

Staðreyndin er sú að við búum í samfélagi þar sem samkomulag er um umgengni sameiginlegra salerna og ætti það í raun að vera forsenda fyrir sjálfræði fullorðinna einstaklinga að ganga vel um sameiginlega snertifleti þjóðarinnar.