Leikarinn Magnús Scheving, sem þekktastur er fyrir túlkun sína á í­þrótta­álfinum, telur of­beldi eiga sér stað á mörgum sviðum og segir það meðal annars geta verið of­beldi þegar gift fólk fær ekki kyn­líf frá maka sínum.

Magnús viðraði þessa og fleiri skoðanir sínar í hlað­varpi Begga Ólafs fyrr í vikunni. Þar tók hann fram að gæti hann veifað töfra­sprota og leyst eitt vanda­mál í heiminum væri það of­beldi. „Maður sér harminn sem gerist út í heimi, við stríð og fleira og þetta eru allt ein­hverjir karlar, ljótt að segja það er bara stað­reyndin,“ út­skýrði Magnús.

Of­beldi á að mati Magnúsar aldrei rétt á sér og finnst það á ó­líkum sviðum. „Of­beldi getur alveg verið þannig að þú ert giftur og við­komandi fær ekki kyn­líf hjá hinum, það getur verið of­beldi.“

Vændis­hús til vegna kyn­lífs­skorts karla

Í þeim dúr kveðst Magnús oft hafa spurt sig hvers vegna alls staðar í heiminum sé að finna vændis­hús og telur þetta vera skýringu þess. „Það eru hóru­hús úti um allt, þetta eru ekki hóru­hús fyrir konur þetta eru hóru­hús fyrir karla. Er hugsan­legur mögu­legur að karlar fái ekki nógu mikið kyn­líf?“ spyr Magnús.

„Er það mögu­leiki?, af hverju er þessi eftir­spurn?, eru karlar bara alltaf graðir bara enda­laust og erum við þá komin með lausnina á því af hverju þeir haga sér eins og fá­vitar? Eigum við þá að gelda þá eða hvað eigum við að gera við þá, sprauta þá niður eða hvað er málið?“ Magnús veltir fyrir sér hver vegna karlar gerist svo oft á­rásar­gjarnir.

Best að minnka vesenið

Því næst tók Magnús fram að of­beldi væri túlkað á ó­líkan hátt milli fólks. „Of­beldi getur verið á svo marga vegu. Sumum finnst of­beldi ef að verið er að spila lag í botni í partíi.“ Sumir kalli því há­vaða of­beldi. Magnús kveðst per­sónu­lega ekki hafa upp­lifað há­vaða sem of­beldi.

„Ég hef ekki litið á það sem vesen. Þetta er vand­lifað hvernig maður á að gera þetta.“ Magnús leggur til þess að fólk minnki vesen og breyti við­horfi sínu í slíkum málum.