Rósrauður bjarmi leikur um fyrstu tónleika og hljómplötur félaganna Magnúsar Þórs Sigmundssonar og Jóhanns Helgasonar í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar, fyrir hálfri öld, en þar var sleginn nýr hljómur sem landsmenn nutu í ríkum mæli – og njóta enn, því lögin lifa góðu lífi, rétt eins og listamennirnir báðir sem komnir eru á áttræðisaldur, en það er raunar enginn aldur í dag.

„Við höfum líklega einhvern tíma verið yngri, en við höfum aldrei verið betri,“ segir Magnús Þór og segir svo komið í samstarfi hans og Jóhanns að mikils undirbúnings þurfi ekki við fyrir tónleika þeirra. „Blessaður vertu, við æfum aldrei, þurfum þess ekki,“ bætir hann við.

Skóflurnar urðu gítarar

Þessir gömlu og góðu vinir eru af Suðurnesjunum og í stað þess að sækja sjóinn fast, tóku þeir skóflur í hönd á unglingsaldri og mokuðu sig hvor í átt að öðrum, frá Njarðvíkum og Keflavík – og hittust á þeim buxunum á mörkum bæjanna, svo til fyrir tilviljun.

Skóflurnar breyttust brátt í gítarara í höndum þessara vina, en árið 1966 gekk Magnús til liðs við keflvísku hljómsveitina Rofa þar sem Jóhann var fyrir á fleti, en við mannabreytingarnar breytti grúppan um nafn og kallaðist Nesmenn allt til 1969 þegar hana þraut örendi.

Um líkt leyti hófst hið raunverulega tónlistarsamstarf dúettsins og lagasmíðar hans, en meðfædd hógværðin gerði það að verkum að þeir komu ekki fram fyrr en tveimur árum seinna, um vorið 1971, en það mun hafa verið á vegum félagsskaparins Vikivaka sem var áhugahópur fólks um þjóðlagatónlist.

„Við vorum undir áhrifum frá heimstónlist þessa tíma, gítarpoppi með rödduðum söng,“ rifjar Magnús Þór upp, en hann hafi í byrjun verið neðri röddin og Jóhann sú efri. „En núna hefur þetta snúist við, þannig leikur tíminn okkur.“

Magnús og Jóhann þegar þeir stilltu saman strengi sína í Bæjarbíói í Hafnarfirði fyrir nokkrum árum.
Fréttablaðið/Anton Brink

Líkt við Simon og Garfunkel

Þjóðlagaskotinni hljómlist þeirra Magnúsar og Jóhanns, svo og rödduðum söngnum, var umsvifalaust líkt við hetjur harmóníunnar um þetta leyti, svo sem Loggins og Messina og Simon og Garfunkel – og þótti ekki leiðum að líkjast.

„Hippatónlistin var að blómstra á þessum árum með friðarboðskap sínum og það var sameiginlegt öllum sem sungu á þessum tíma að þeir vildu betri heim,“ segir Magnús Þór, en er hreint ekki viss hvort heimurinn hafi eitthvað skánað.

Ári eftir fyrstu tónleika dúettsins kom fyrsta hljómskífa þeirra í búðir og bar fornöfn þeirra, en hún fékk góða dóma og seldist í hálfu þriðja þúsund eintaka sem þótti gott á þeirri tíð. Meðal laga á plötunni var Mary Jane sem naut um leið mikilla vinsælda og er enn leikið í útvarpi, fimmtíu árum eftir útkomu þess.

„Svo má nefna Blue Jean Queen,“ bætir Magnús Þór við – og þá ekki síður lög sem þeir hafa samið hvor í sínu lagi, lífseigar ballöður sem auðvitað verða líka teknar í ár í bland við annað efni.

Stórtónleikar í haust

Það eru tíðindi að þeir leiði nú saman söngva sína á ný, Magnús og Jóhann, báðir komnir á áttræðisaldur eins og fyrr segir, en leika sem fyrr við hvern sinn fingur eins og forðum daga á tónleikunum hjá Vikivaka fyrir hálfri öld eða svo.

„Og svo höldum við enn frekar upp á það í haust að hálf öld er liðin frá okkar fyrstu plötu saman,“ segir Magnús Þór og horfir til Háskólabíós. „Þar ætluðum við að vera með stórtónleika í nóvember – og þar verður ekkert til sparað,“ segir hann að lokum.