Magnús Már Einarsson, fyrrum ritstjóri íþróttavefsíðunnar Fotbolti.net, er genginn í það heilaga. Brúðkaup Magnúsar og Önnu Guðrúnar Ingadóttur var í gær.
Óhætt er að segja að fótbolti hafi verið eitt meginþemað í brúðkaupsathöfninni en Guðni Már Harðarson, prestur í Lindakirkju, hélt uppi hvítu spjaldi með áletruninni (Staðfest) undir lok hennar.
Um er að ræða tilvísun í orðalag þegar fótboltaleikmenn skipta um lið sem vefsíðan Fotbolti.net hefur gert að sinni.
Brúðkaupið fór fram á sama tíma og bróðir Magnúsar, Anton Ari Einarsson, markvörður hjá Breiðabliki, spilaði í leik efri hluta Bestu-deildarinnar á móti KA á Greifavellinum. Sumir brúðkaupsgestirnir fengu að fylgjast með leiknum í snjallsíma á meðan athöfnin fór fram. Í athugasemd við færslu um brúðkaupið á Twitter komst Guðni Már svo að orði að hann hefði skírt barn leikmanns úr Lengjudeild í fyrri hálfleik og gift þjálfara úr Lengjudeild í hinum seinni (staðfest).
Brúðkaup hjá @maggimar endaði á þessari tilkynningu frá @GudniMarH Óheppilegt að bróðir hans spilaði leik á sama tíma en það var hægt að horfa boltann í athöfninni eins og @tomthordarson og @elvargeir gerðu. pic.twitter.com/jzMylZHthP
— Hafliði Breiðfjörð (@haflidib) October 8, 2022