Þrjár söng­elskar systur, Margrét Ósk Guð­jóns­dóttir og Odd­ný og Freyja Benónýs­dætur, á­kváðu á sunnudaginn síðast liðinn að taka upp söng­mynd­band og senda á ömmu sína. Á skömmum tíma vatt hug­myndin upp á sig og birti faðir Margrétar, sem einnig lék undir á píanó, mynd­bandið af þeim á Face­book síðu sinni sem varð til þess að þúsundir Ís­lendinga horfðu á og deildu mynd­bandinu.

Myndböndin áttu fyrst bara að fara til ömmu stúlknanna

Systurnar hafa allar æft söng áður en Margrét Ósk, sem er ellefu ára gömul, er sú eina sem er í söng­námi í augna­blikinu. Eldri systurnar, Odd­ný og Freyja eru báðar sau­tján ára gamlar og eru þær tví­bura­systur. Mynd­bandið gekk eins og eldur um sinu á sam­fé­lags­miðlum og tón­listar­mennirnir Bubbi Morthens og Stebbi Hilmars skrifuðu meðal annars skila­boð til systranna en lögin sem þær sungu á mynd­böndunum tveimur voru frá þeim.

Frétta­blaðið náði tali af systrunum sem segjast mjög oft syngja saman.

„Fyrsta hug­myndin var bara að senda þetta vídeó til ömmu og svo fór þetta bara á Face­book og daginn eftir vorum við mjög hissa hvað það voru margir búnir að horfa á og deila. Okkur leið mjög vel og þetta var mjög skrítið,“ segja systurnar sem eru hæst á­nægðar með við­brögðin.

Gott að geta glatt fólk

Eftir að fyrsta mynd­bandið fékk góðar undir­tektir á­kváðu systurnar að taka upp annað mynd­band. Fyrst tóku þær upp lagið „Undir þínum á­hrifum“ með Sálinni hans Jóns míns en í seinna mynd­bandinu tóku þær lagið „Með þér“ með Bubba Morthens. Báðir höfundar laganna skrifuðu við færslurnar og að­spurðar segjast systurnar mjög glaðar með það.

„Já það var æðis­legt, alveg geggjað,“ segja systurnar og skella upp úr. Allar eru þær sam­mála um að þeim þyki mjög gott að geta glatt fólk í þeim erfiðu að­stæðum sem eru í landinu og að­spurðar viður­kenna þær að nýtt mynd­band sé mögu­lega væntan­legt í kvöld.