Um helgina stendur yfir í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar svokölluð Schulhoff-hátíð. Þar fá gestir á tvennum tónleikum að kynnast verkum framúrstefnulega tónskáldsins Erwin Schulhoff sem lést fyrir 80 árum. Hlíf Sigurjónsdóttir fiðluleikari, sem stendur fyrir hátíðinni, hafði þó ekki heyrt af tónskáldinu fyrr en í fyrra.

„Þá fékk ég vorkveðju frá vini mínum, Alexander Liebermann, frá Prag,“ segir Hlíf. „Ég spurði hann strax hvað hann væri nú að gera í Prag í miðju Covid og þá kom í ljós að hann hafði farið þangað til að komast á bókasafn til að skoða frumritin af nótum Schulhoff.“

Hlíf kannaðist ekkert við skáldið á þeim tíma og svaraði hreinlega „ha, hver?“

„Þá útskýrði Alexander fyrir mér að Schulhoff væri skáldið sem hann væri að skrifa doktorsritgerðina sína um, og það tónskáld sem fékk hann til að verða tónskáld sjálfur,“ segir Hlíf. „Ég varð fyrir hálfgerðu áfalli því ég hafði aldrei heyrt minnst á þennan mann. Ég fór þá á netið og kynnti mér Schulhoff og komst strax að því hvað hann var æðislegt tónskáld.“

Hlíf lýsir því sem fantaáfalli að komast að því að verið hefði til jafngott tónskáld sem hún þekkti ekki.

„Ég sagði þá við Alexander að við myndum halda Schulhoff-hátíð á Íslandi og þannig varð þetta til,“ segir hún. „Ég er með fiðring í maganum yfir þessari hátíð því þetta er svo makalaus músík.“

Lést í fangabúðum nasista

Alexander verður með leiðsögn á hátíðinni þar sem hann mun segja frá ævi og störfum Schulhoff.

Erwin Schulhoff fæddist 8. júní 1894 í Prag og hóf ungur tónlistarnám. Hann nam píanóleik og tónsmíðar í Vín, Leipzig og Köln og undir ekki minni meisturum en Claude Debussy, Max Reger, Fritz Steinbach og Willi Thern.

Erwin Schulhoff lést úr berklum í fangabúðum nasista 14. ágúst 1942.

Við uppgang nasismans átti Schulhoff undir högg að sækja, en hann var af gyðingaættum og þar að auki hliðhollur kommúnistum. Hann var handtekinn af nasistum og færður í fangelsi þar sem hann dó úr berklum 18. ágúst 1942.

„Á þeim tíma sem hann elst upp var Prag auðvitað miðstöð klassískrar tónlistar og mörg helstu tónskáldin frumfluttu verk sín þar,“ útskýrir Hlíf. „Þetta blandast inn í öll þessi þjóðernisátök þar til að hann deyr í fangabúðum nasista 1942. Eftir að við ákváðum að halda þessa hátíð þá áttaði ég mig á því að í ágúst verða liðin 80 ár frá því að Schulhoff lést.“

Að höggva í stein

Hlíf lýsir Schulhoff sem forvitnu skáldi sem kunni handverkið út í æsar.

„Hann var mjög leitandi og vildi hafa eitthvað sem færi út fyrir normið. Hann var ekki að leitast við að búa til afþreyingartónlist heldur vildi hann gera eitthvað áreitið, því hann hafði svo mikið að segja,“ segir hún. „Þegar við höfum verið að æfa þá skynja ég mjög sterkt þessi átök Evrópu í tónlistinni.“

Tónlist Schulhoff er þannig bæði mögnuð og krefjandi.

„Uppáhaldsefniviður pabba var auðvitað að höggva í stein, sem er auðvitað mjög erfitt því ef þú gerir einhver mistök þá er steinninn ónýtur,“ segir Hlíf, sem er dóttir Sigurjóns Ólafssonar myndhöggvara. „Þessi músík er svolítið eins og steinninn – erfið viðureignar en þegar komið er inn – maður lifandi, hvað þetta er gefandi!“

Tónleikarnir fara fram klukkan 20 í kvöld og á morgun og er miðasala við inngang. Dagskrána í heild má finna á heimasíðu safnsins.