Um starfið segir Aron: „Ég er búinn að vera að spila og hef verið að þjálfa innan rafíþróttarinnar. Núna er ég kominn í skrifstofugiggið. Ég var formaður Stúdentaráðs HÍ sem á sínum tíma var 90 ára gamalt félag og byggði á rótgrónum hefðum og regluverki. Mitt hlutverk hjá RÍSÍ er byggja upp starfið, tryggja grunninn, koma ferlum í farveg og fast mót, passa upp á gæðastarfið og sinna fræðsluteyminu. Þá hef ég farið út á land til að hitta fólk og hjálpa því að koma af stað rafíþróttastarfi í sínu sveitarfélagi. Þá var ég á Eskifirði fyrir stuttu og Bolungarvík þar áður að halda námskeið. RÍSÍ nýtur góðs af starfi gríðarlegs fjölda sjálfboðaliða sem tekur jafnvel andvökunætur til að sjá til þess að fólk geti fengið að keppa í íþróttinni sinni,“ segir Aron.

Vantaði grundvöll

Það sem einkennir þetta starf segir Aron vera það hvað allir eru jákvæðir og glaðir. „Það er svo margt að gerast og þetta sprengir algerlega utan af sér alls staðar þar sem starfið fer af stað. Það vantaði klárlega grundvöll fyrir þennan hóp af krökkum en margir sem koma í rafíþróttirnar hafa ekki nýtt sér frístundastyrki í aðrar íþróttir. Við erum í raun ekki að fjölga spilurum heldur erum við að búa til grundvöll fyrir þessa krakka, búa til ramma í kringum starfsemina og lyfta þessu upp á yfirborðið.

Við höfum unnið með sálfræðingum, félagsfræðingum og tómstundarfræðingum til þess að byggja upp félagsstarfið. Þá hefur verið markmiðið hjá flestum að búa til kerfi sem við sjálf hefðum viljað að væri við lýði þegar við vorum ungmenni, að taka okkar fyrstu skref í íþróttinni.

Það hefur komið á daginn að það er rosalega gott fyrir krakkana að tilheyra æfingahóp sem þau hitta reglulega. Þau eru að spila með jafnöldrum sínum og jafningjum, en það er ekkert sem tekur frá mikilvægi dýpri félagslegra tenginga sem fást við það að standa augliti til auglits við aðra manneskju. Við sjáum það sjálf núna í faraldrinum að samskipti í gegnum samfélagsmiðla og aðra tölvumiðla koma ekki í staðinn fyrir samskipti við manneskju af holdi og blóði. Það er þannig sem tilfinningagreind lærist og krakkarnir læra að takast á við það saman til dæmis að tapa leik og ræða um það eftir á. Það er ekki lengur hægt að henda heyrnartólunum út í horn og fara í fýlu einn með sjálfum sér. Meðspilarar þínir hverfa ekki þegar þeir eru staddir í herberginu með þér.“

Valdefling

Aron segir það magnað að sjá krakkana valdeflast í rafíþróttastarfinu. „Það var ótrúlegt að sjá krakkana mæta á fyrsta degi í íþróttahús Fylkis þegar ég var í því starfi. Þau læddust meðfram veggjum og reyndu að gera sig eins lítil og hægt var í kringum alla fimleika- og fótboltakrakkana. Svo leið ekki á löngu uns ég horfði upp á þau fá skammir frá húsverðinum. Það gladdi mig óhóflega enda þýddi þetta að þau voru loksins farin að taka sér pláss innan starfsins. Þetta var rosalega falleg sjón.“

Falið hjá eldri kynslóðinni

Að sögn Arons eru mjög margir, sérstaklega eldri spilarar, sem tjá sig ekki um að þeir séu að spila. „Ég frétti það frá einum keppanda í framhaldsskólaleikunum að 64 ára afi hans, sem var ráðherra í síðustu ríkisstjórn og situr á þingi í dag, hefur verið að spila Counter Strike með barnabarninu. Það eru mjög margir sem spila en tjá sig ekkert um það. En ég held að hægt og rólega, þegar á líður, muni fólk geta spjallað um þetta sport eins og annað sport.“

Fjárhagslegar hindranir

„RÍSÍ eru ný samtök sem eru enn þá bara lítið barn. En við vöxum hratt úr grasi og það er ákveðin kúnst að halda utan um allt það starf sem er í gangi. Einmitt núna eru yfir 1.000 keppendur að keppa í rafíþróttum á okkar vegum. Þetta eru fyrst og fremst eldri spilarar en æskulýðsstarfið er ekki byrjað að halda mót og spila á þeim.

Helstu hindranir okkar eru fjárhagslegar en við höfum ekki fengið mikið af opinberum stuðningi. Nú erum við að vinna að verkefni með félagsmálaráðuneytinu þar sem við tökum inn í starfið til okkar tíu ungmenni sem eru á atvinnuleysisskrá í sex mánuði og þjálfum þau upp í rafíþróttum. En það eru ógrynnin öll af störfum í kringum þennan bransa. Það hjálpar þegar fjölmiðlar eru duglegir að beina athyglinni að því góða starfi sem fer fram innan RÍSÍ og við erum heppin að barnamálaráðherra, Ásmundur Einars, er framarlega í þessum verkefnum og hefur trú á þeim.“