Hljómdiskur Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Concurrence, er tilnefndur til Grammy-verðlauna í flokknum Besti hljómsveitarflutningur. Á disknum flytur Sinfóníuhljómsveit Íslands, undir stjórn Daníels Bjarnasonar, ný verk eftir fjögur íslensk tónskáld. Fimm hljómdiskar eru tilnefndir til Grammy-verðlauna í þessum flokki, og meðal annarra tilnefninga má nefna Fílharmóníusveitina í Los Angeles og Sinfóníuhljómsveitina í San Francisco. Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur einu sinni áður verið tilnefnd til Grammy-verðlauna fyrir besta hljómsveitarflutning, árið 2009.

„Grammy-verðlaunin eru sennilega þekktustu tónlistarverðlaun í heimi þannig að þetta er gríðarlega gaman og mikill heiður fyrir alla sem komu að þessu verkefni,“ segir Daníel.

Á disknum eru ný verk eftir fjögur íslensk tónskáld. „Þetta eru Oceans eftir Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur og Metacosmos eftir Önnu Þorvaldsdóttur sem var pantað frá Fílhamóníunni í New York og hefur þegar verið flutt víða um heim, píanókonsert eftir Hauk Tómasson þar sem Víkingur Heiðar leikur einleik og sellókonsert eftir Pál Ragnar Pálsson, þar sem Sæunn Þorsteinsdóttir leikur á selló, en bæði þessi verk voru frumflutt á Reykjavíkurhátíðinni í Los Angeles fyrir tveimur árum. Allt eru þetta því nýleg verk,“ segir Daníel.

Annar af þremur

Diskurinn Concurrence er annar í röðinni af þremur í samstarfi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og bandarísku útgáfunnar Sono Luminus, þar sem hljómsveitin flytur alls fjórtán ný íslensk hljómsveitarverk undir stjórn Daníels. Lokadiskur útgáfuraðarinnar, Occurrence, er væntanlegur í janúar 2021. „Þar verða meðal annnars fiðlukonsertinn minn og flautukonsert eftir Þuríði Jónsdóttur auk verka eftir Hauk Tómasson, Veronique Vöku og Magnús Blöndal Jóhannesson,“ segir Daníel. „Hugmyndin með útgáfunni er að gefa mynd af því sem er að gerast í þessum geira tónlistar á Íslandi í dag.“

The New York Times valdi Concurrence eina af athyglisverðustu klassísku útgáfum ársins 2019 og bandaríska útvarpsstöðin NPR valdi diskinn sömuleiðis einn af tíu bestu útgáfum ársins. Í umsögn þeirra segir meðal annars: „Eyríkið Ísland er, þrátt fyrir smæð sína, risi á sviði klassískrar tónlistar.“

Setið í hring

„Það hefur verið magnað að fylgjast með þeim frábæru viðtökum sem þessar tvær plötur sem eru komnar út hafa fengið,“ segir Daníel. „Þetta eru miklir snillingar hjá Sono Luminus, þar eru frábærir upptökumenn og hljómurinn er sérstaklega góður. Það var beitt nýstárlegri aðferð við að taka diskana upp, hljómsveitin var látin sitja í hring og ég stóð í miðjunni og stjórnaði. Þannig verður til hringómahljóð. Það er hægt hlusta á plöturnar þannig ef maður er með græjur til þess.“

Spurður hvaða máli tilnefningin skiptir fyrir hann, hljómsveitina, einleikarana og tónskáldin segir Daníel: „Þetta er ákveðin vítamínsprauta fyrir alla sem koma að þessu verkefni og ætti líka að vera hvatning fyrir öll íslensk tónskáld og flytjendur. Tilnefningin verður til þess að vekja meiri athygli á Sinfóníuhljómsveit Íslands og beinir enn sterkara ljósi að íslenskum tónskáldum.”