Frumkvöðlafræðingurinn Margrét Friðriksdóttir, sannkristinn stjórnandi Stjórnmálaspjallsins á Facebook, segist lítið skilja í yfirlýsingu hljómsveitarinnar HATARI um að hún hafi tekið að sér almannatengsl fyrir sveitina.

„Ég bara veit ekkert hvaða strákar þetta eru og þeir hafa ekkert haft samband við mig,“ segir Margrét í samtali við Fréttablaðið og bætir við að HATARI og tónlist þeirra séu ekki alveg hennar tebolli.

„Ég hló nú bara að þessu fyrst þegar ég sá þetta og hugsaði með mér hvaða rugl þetta væri,“ segir Margrét sem hefur varað ákaft við því að HATARI verði framlag Íslands í Eurovision í Ísrael í vor. „Ég tek þessu ekkert það alvarlega að taki þetta inn á mig og finnst þetta bara fyndið.“

Sjá einnig: Deila um framlag Hatari og þátttöku Íslands

„Ég hélt nú bara að fólk sæi í gegnum þetta bull. Að ég væri búin að skrifa undir einhvern samning við Svikamyllu og eitthvað þannig,“ segir Margrét og hefur enga trú á því að sú neikvæða athygli sem hún gefi HATARA snúist upp í andhverfu sína og teljist hljómsveitinni til tekna.

Bíður eftir rauða spjaldinu

Margrét segist jafnframt binda miklar vonir við að HATARA verði vísað úr Söngvakeppninni þar sem hún telur ljóst að  lag sveitarinnar, Hatrið mun sigra, brjóti í bága við strangar reglur Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.

„Þetta virðist nú bara vera ólöglegt atriði og ég held að þetta verði ekkert samþykkt. Verði bara bannað. Þetta er ekki pólitísk keppni og það er tekið rosalega strangt á svona. Reglurnar í Eurovision eru mjög skýrar og strangar og þar má ekki vera með neinn áróður eða pólitíska ádeilu.  Það er alveg blátt bann við öllu svoleiðis.“

Margrét er ákaflega hliðholl málstað Ísralesmanna fyrir botni Miðjarðarhafs og unir illa þeim viðhorfum í garð þeirra sem birtast í málflutningi og tónlist HATARA.

Sjá einnig: Hatari skorar á Netanyahu í glímu

„En það sáu ekki allir í gegnum þennan pólitíska áróður og mér sýnist fullt af fólki ekki einu sinni hafa áttað sig á þessu. Það voru náttúrlega bara ég og einhverjir fleiri sem eru vel inni í þessum málum.“

Búið að „bösta“ þá

„HATARI reyndi líka að fara svolítið leynt með þetta. Gáfu eitthvað aðeins í skyn en nú er orðið alveg ljóst um hvað er að ræða. Það er búið að bösta þá,“ segir Margrét sem mun ekki harma það ef hljómsveitinni verður vísað frá keppni.

„Ég myndi ekki gráta það og held það sé alveg ljóst að þetta mun valda alveg svakalegum usla, sérstaklega ef við erum að brjóta lög og reglur keppninnar í þokkabót.“

En þarftu nokkuð í raun að hafa svona þungar áhyggjur. Er nokkur hætta á að þjóðin muni tryggja HATARA sigur í keppninni hérna heima?

Sjá einnig: Hatari og Hera Björk komust áfram

„Þeir fengu allavegana meirihluta atkvæða í undankeppninni,“ segir Margrét og telur ljóst að þar vegi unga fólkið þungt. „Það virðist vera stór hópur, sérstaklega ungt fólk, sem fílar hljómsveitina og áttar sig ekki á pólitíska áróðrinum. Síðan er eitthvað af eldra fólki sem fílar lagið vegna þess að þeim finnst það öðruvísi og vilja prófa eitthvað nýtt.

En unga fólkið er rosalega mikið að hvetja alla til að kjósa lagið. Dætur mínar hafa séð mikið af því á netinu þar sem   „allir að kjósa Hatara, allir að kjósa Hatara“ er áberandi.“