„Eins og nafnið gefur til kynna er ég svolítið að taka á málum sem hafa ekki mikið fengið að heyrast í þjóðfélaginu. Hin hliðin. Það sem er ýmist þaggað niður eða ekki áhugi fyrir að fjalla um, hvað sem því veldur,“ segir Margrét, sem löngum hefur verið umdeild og víða milli tannanna á fólki og í seinni tíð ekki síst eftir að hún stofnaði vefmiðilinn Fréttin.is.
„Það má kannski segja að þetta sé svona í framhaldi af Fréttinni. Ég er kannski líka að fara ítarlegar í mál sem er verið að ræða mikið þar. Ég myndi segja að þetta væri kannski tengt að því leyti að sérsvið okkar á Fréttinni er að fjalla um mál sem enginn annar fjallar um.“
Þættirnir koma út vikulega á fimmtudögum en Margrét er þegar búin að taka nokkra upp og sá fyrsti fór í loftið í síðustu viku og þar ræddi Margrét við lækninn Guðmund Karl Snæbjörnsson, sem hefur meðal annars komist í kast við Lyfjastofnun fyrir að mæla með lyfinu Ivermectin við Covid-19.
„Ég get kannski ekki nafngreint næsta gest en hann er afreksíþróttamaður og frægur sundkappi sem lenti í alvarlegum aukaverkunum eftir Covid-bólusetningu. Síðan er maður á leiðinni til mín sem læknaðist af Parkinsons með CBD-olíu. Kannabisolíunni.“

Margrét segist hafa fengið ágætis viðbrögð enn sem komið er. „Það er ekkert búið að skammast í mér enn þá allavega. Ég meina, er ekki fólk sem er lýðræðislega þenkjandi opið fyrir allri umræðu? Vill enga þöggun?“
Magga viðurkennir fúslega að slík þáttagerð hafi ekki verið á áætlun hjá henni en þegar henni var boðið að vera með þátt á Uppkast.is hafi hún eftir nokkra umhugsun ákveðið að slá til.
„Þetta er svolítið öðruvísi og eitthvað sem ég hef aldrei gert áður en ég held ég sé bara að fíla mig vel í þessu. Mér finnst alltaf gaman að taka mér eitthvað nýtt fyrir hendur og svo sér maður bara hvernig fólk tekur í þetta og mér sýnist þessu bara nokkuð vel tekið,“ segir Margrét og bendir á að Uppkast.is bjóði upp á sjö daga ókeypis prufuáskrift. „Fyrir þá sem vilja prófa og skoða hvernig þetta virkar. Það er bara svo mikilvægt að halda umræðunni opinni í lýðræðislegu samfélagi en því hefur náttúrlega verið svolítið ábótavant og kannski fáir sem þora að fara út í þessi málefni sem ég er að taka fyrir,“ segir Margrét ódeig að vanda.
„Við hvað á maður að vera hræddur? Maður á ekkert að vera hræddur við að tjá sig í lýðræðislegu samfélagi þar sem málfrelsið er meira að segja stjórnarskrárvarið. Ef það þorir enginn að tjá sig, ég meina, hvar endum við þá?“