Öndvegisleikararnir Ray Liotta, James Caan, Paul Sorvino og Tony Sirico kvöddu þennan heim í sumar. Þrátt fyrir ýmsa mannkosti og óumdeilda leikhæfileika verður þeirra sjálfsagt lengst minnst fyrir að hafa, að því er virtist áreynslulítið, skráð sig á spjöld menningarsögunnar sem fulltrúar baneitraðrar karlmennsku; samvisku- og siðlausra ofbeldisfauta í hinum sígildu The Godfather, Goodfellas og tímamótasjónvarpsþáttunum The Sopranos.

Ray Liotta (1954–2022)

Ray Liotta var 67 ára þegar hann varð bráð­kvaddur þann 26. maí. Hann vakti fyrst at­hygli 1986 sem leiðin­dagaur sem gerði Melani­e Griffith og Jeff Dani­els lífið leitt í kvik­myndinni So­met­hing Wild en hann átti í­trekað eftir að túlka ýmiss konar síkópata í fram­tíðinni.

Ray Liotta fór á kostum sem gikkurinn og síðar uppljóstrarinn Henry Hill í Goodfellas fyrir þremur áratugum en hann var aðeins 67 ára þegar hann lést snemma í sumar.
Fréttablaðið/Samsett

Hann lék hafna­bolta­kempuna Sho­less Joe Jack­son á móti Kevin Costner í Field of Dreams 1989 en frammi­staða hans sem gang­sterinn Henry Hill í Goodfellas ári síðar yfir­skyggir öll önnur af­rek hans fyrr og síðar.

Hann lokaði síðan glæpa­hringnum 2021 þegar hann lék í The Many Saints of Newark, kvik­mynda­for­leik The Sopra­nos, sem reyndist því miður eitt af hinstu verkum hans.

Tony Sirico (1942–2022)


Anthony Sirico yngri var 79 ára þegar hann féll frá 8. júlí eftir langan glæpaferil bæði í raunveruleikanum og kvikmyndum þar sem hann lék krimma í myndum á borð við Goodfellas, Mob Queen, Mighty Aphrodite, Love and Money, Fingers, Bullets over Broadway, Gotti, Cop Land og síðast en ekki síst The Sopranos þar sem hann fór með himinskautum sem Paulie Walnuts, einn tryggasti skutil­sveinn Tonys Soprano.

James heitinn Gandolfini og Tony Sirico voru harðir í horn að taka sem Tony Soprano og hans óstöðuga hægri hönd, Paulie Walnuts sem eins og leikarinn sem túlkaði hann var sannkallaður konfektmoli, harður að utan en mjúkur að innan.
Fréttablaðið/Samsett

Áður en Sirico lagði leiklistina fyrir sig hafði hann verið handtekinn 28 sinnum og hlotið nokkra dóma fyrir ýmsa glæpi; óspektir, árásir og rán svo eitthvað sé nefnt. 1971 var hann ákærður fyrir fjárkúgun, þvingun og ólöglegan vopnaburð og afplánaði í kjölfarið 20 mánuði af fjögurra ára dómi í hinu alræmda Sing Sing fangelsi.

Heimatökin voru því hæg hjá Tony þegar kom að því að bregða sér í gervi glæpamanna en samstarfsfólk hans minnist hans þó sem gegnheils manns og alvöru töffara. Sönnum vini vina sinna og þannig hafa Jamie-Lynn Sigler og Robert Iler, sem voru á unglingsaldri þegar þau byrjuðu að leika börn Tony Soprano, sagt að þau hafi sloppið við allt áreiti á tökustað þar sem allir vissu að ef eitthvað yrði gert á þeirra hlut væri Tony Sirico að mæta.

James Caan (1940–2022)


James Caan var 82 ára þegar hann lést 6. júlí og sem Sonny Corleone, elsti sonur og erfðaprins glæpaveldis Don Corleone í meistaraverkinu The Godfather má hann teljast mesti stórlaxinn í þessum grimma hópi.
Ferill hans var langur og brokkgengur og ef til vill nokkuð kaldhæðnislegt að hann átti marga miklu betri spretti en í Guðföðurnum 1972 enda skaphundurinn og ruddinn Sonny Corleone ekkert sérstaklega á dýptina.

Það gustaði af James Caan í hlutverki hins ofsfengna Sonny Corleone í Guðförðurnum og sá gamli var ern í 50 ára afmæli myndarinnar fyrr á þessu ári, skömmu áður en hann kvaddi þennan heim.
Fréttablaðið/Samsett

Hins vegar lét hann skapið hlaupa með sig í gönur í síðasta sinn í einni af mörgum eftirminnilegum senum Guðföðurins þar sem hann var sallaður niður í slíku kúlnaregni að annað eins hefur vart sést, 50 árum síðar.

Skuggi Sonny Corleone lá því yfir öllum minningargreinunum um leikarann sem gerði þó einnig gott mót í til dæmis Misery (1990), Dogville (2003), jólagríninu Elf (2003) að ógleymdri einni bestu mynd leikstjórans Michaels Mann, Thief, frá 1980.

Paul Sorvino (1939–2022)


Hinn fjölhæfi Paul Sorvino var 83 ára þegar hann lést 25. júlí en auk þess að leika stundaði hann viðskipti, óperusöng og ritstörf. Hann lék einnig tveimur skjöldum og er þekktastur annars vegar fyrir túlkun sína á mafíuforingjanum Paulie Cicero í Goodfellas og rannsóknarlöggunni Phil Cerreta í sjónvarpsþáttunum Law&Order.

Paul Sorvinu ásamt Miru Sorvino en rafturinn Harvey Weinstein átti ekki von á góðu eftir að mafíósaleikarinn frétti af framkomu hans í garð dóttur hans.
Mynd/getty

Þá var hann ekki síður harður í horn að taka og hikaði ekki við að hóta því að drepa perraframleiðandann Harvey Weinstein þegar hann komst að því að sótrafturinn sá hafði áreitt Miru, dóttur hans, og síðan lagt sig fram um að eyðileggja leikferil hennar eftir að hún varðist áreitni hans.

„Hann fer í fangelsi, ó já. Þessi tíkarsonur. Eins gott fyrir hann vegna þess að ef það gerist ekki þá þarf hann að mæta mér. Og ég mun drepa þennan fjandans djöflamerg. Mjög einfalt.“