Þóra stofnaði jógastúdíó á Njálsgötunni árið 2015 sem hún segir að hafi örugglega verið minnsta jógastúdíó í heiminum á þeim tíma.

„Við gátum í mesta lagi verið sjö í einum tíma. Ég var líka með ýmiss konar jógavarning og fjöl­breytta jógatíma. Ég gekk með fyrsta strákinn minn þegar ég stofnaði stúdíóið og ég kenndi alla tímana sjálf til að byrja með. Eftir að tímunum fór að fjölga og kúlan á mér að stækka, réði ég kennara til að kenna tímana“ segir Þóra, en hún byrjaði að kenna jóga aftur þegar strákurinn hennar var mánaðar­gamall.

„Maðurinn minn var á Akureyri í vinnu þannig ég var ein að reka stúdíóið og með nýfætt barn. Ég flutti síðan til Akureyrar og þurfti því að loka stúdíóinu. Eftir að móðurhlutverkið tók yfir átti ég í erfiðleikum með að finna aftur jafnvægið, kraftinn og það sem drífur mig áfram. Að stunda jóga og hugleiðslu hjálpaði mér mikið í að styrkja mig aftur líkamlega og andlega.“

Þóra endurvakti jógastúdí­ó­ið sitt nýlega eftir að hafa tekið diplómu­nám í Háskólanum á Bifröst sem heitir Skapandi greinar.

„Sem listdansari hef ég unnið í skapandi geiranum við ýmis fjölbreytt verkefni. Mig langaði að ­víkka sjóndeildarhringinn enn frekar og skráði mig í námið. Í náminu er fjallað dýpra um hvað skapandi greinar eru og hvaða áhif þær hafa á samfélagið. Einnig lærum við um rekstur fyrirtækja, verkefnastjórnun, markaðsfræði og fleira.Þetta er mjög skemmtilegt nám og hjálpaði mér að kjarna mína hugmynd betur, sem er 101 yoga. Námið gaf mér hugrekki til að fara nýjar leiðir til að miðla jóga inn í líf fólks,“ útskýrir Þóra, sem stendur nú fyrir jóganámskeiði fyrir mæður.

Drífandi mæður

Á námskeiðinu veitir Þóra mæðrum persónulega ráðgjöf en það fer mest fram í gegnum streymi.

„Þannig geta uppteknar mæður gert æfingarnar þegar þeim hentar. Ég vil hjálpa mæðrum fyrst og fremst að ná árangri, finna drifkraftinn og styrkja í leiðinni líkama og sál með aðferðum jóga, hugleiðslu, tímastjórnun og markmiðasetningu. Ég stofnaði einnig Facebook-hóp sem heitir Drífandi mæður og er vettvangur fyrir mæður sem vilja deila hug­myndunum sínum, þiggja ráð og gefa ráð og hvetja hvor aðra áfram. Það eru nokkur pláss laus á námskeiðinu og hægt að skrá sig á 101yoga.is/namskeid,“ segir Þóra.

Þóra segir að eftir að hún eignaðist seinni strákinn sinn árið 2019 hafi hún tekið þá ákvörðum að hugsa betur um sig og brenna ekki út í vinnu.

„Það er margt sem gerist hjá mæðrum sem er ekki hægt að útskýra. Ég held að aðrar mæður tengi við það. Eins og til dæmis hormónaflæðið, skapið sveiflast mjög á þessum tíma og ekki er mikið um svefn. Sem tveggja barna móðir hef ég upplifað stundir þar sem ég hef ekki trúað að ég hefði það sem þyrfti eða að ég væri hreinlega ekki nógu góð. Ég þekki vel afsakanir eins og: „Ég hef ekki tíma í þetta“ og „Ég get þetta ekki.“

Ég hef oft hitt mæður sem eru með ­ákveðna sýn á lífið og vilja láta drauma sína rætast, hvort sem það er líkamlegt markmið, að koma sinni list á framfæri, að fara aftur í skólann, að sækja um vinnu eða hvað sem er, en vegna tímaskorts, svefnleysis, þreytu og orkumissis þá látum við ekki verða af því. Við, sem mæður, þurfum hvatningu sem gefur okkur drifkraft og fær okkur til að þora að taka fyrstu skrefin í átt að draumunum. Mæður eru ofurkonur og við þurfum að vera duglegar að minna okkur á það.“