Eyjólfur B. Eyvindarson, sem þekktur er undir sviðsnafninu Sesar A og kallast í daglegu tali Eyjó, rekur sögu sveitarinnar Mæðraveldisins á þá leið, að hann hafi langað til að stofna hljómsveit með kvenkyns hljóðfæraleikurum eingöngu. „Með gítar, trommur, bassa og hljómborð. Ætli það séu ekki fimm ár síðan,“ segir hann. „Þá kom í ljós að þær stelpur sem spila á gítar og tromma eru það umsetnar að þær eru í allt öðrum geira eða á samningi hjá öðrum böndum og ekki lausar,“ segir Eyjó.

Hann náði þó að lokum sambandi við Þórdísi Claessen sem hann segist hafa þekkt frá fyrri tíð. „Hún var bassaleikari og áður slagverksleikari. Margréti Thoroddsen benti frænka mín mér á. Þetta var árið 2017 og við fórum að hittast í rólegheitum,“ segir Eyjó. Hann forritaði trommugrunna og segir þríeykið hafa farið að „djamma yfir það.“ Hægt og rólega hafi lögin farið að taka á sig mynd.

Mæðraveldið hafi eignast fjögur lög, og segir Eyjó að tíma hafi tekið að byrja að skrifa. Hann flutti vestur á Ísafjörð á tímabili og sinnti listinni þar. „Svo bættist við eitt lag, Til lukku, sem fjallar um stjórnarskrána,“ segir hann. Sveitin gerði rafræna útgáfu í framhaldinu en stefnir á vínylútgáfu með vorinu 2023.

Innblásturinn er fenginn utan úr heimi. „Það er ekkert í gangi núna sem mér finnst hljóma eins og Mæðraveldið,“ segir Eyjó aðspurður um hljóminn. „Innblásturinn hjá mér er hiphop og danstónlist en þetta er meira en það. Það er innblástur frá Kúbu og vesturströnd Bandaríkjanna. Afríku líka, tónlist frá Angóla. Til lukku-lagið sækir aftur í tíunda áratuginn, til nítján hundruð níutíu og eitthvað,“ segir hann. „En fólk þarf bara að hlusta á þetta held ég,“ segir Eyjó og hlær.

„Hiphop er svo opið. Undir því þaki er danstónlist og margt annað. Ég rappa og þetta er fjórir fjórðu og forritað eins og hophop. Og einhver afrísk kúbönsk sveifla.“

Eyjó hefur ekki gefið út sólóplötu undir merkjum Sesar A síðan árið 2008. „En ég gerði nokkur lög og spilaði á Secret Solstice 2015,“ segir hann.

„Þegar ég var að byrja var búið að finna upp netið og svona, en það þurfti að gefa út á disk eða vínyl. Ég og Erpur gerðum demó 1997 á íslensku og vorum búnir að taka eitthvað upp á spólu 1991 og svona. Svo kom Stormurinn á eftir logninu út 2001 sem var þá fyrsta rapp-platan á íslensku,“ segir Eyjó aðspurður um fyrstu skrefin í faginu. „Það er það fyrsta sem er gefið út. Og af því ég fékk ekki samning þá stofnaði ég plötuútgáfu af því að það hafði enginn áhuga á að gefa út rapp á íslensku á sínum tíma,“ segir hann. En það breyttist svo sannarlega eins og dæmin sýna á vinsældarlistum síðustu ára, en íslenskt hiphop hefur verið vinsælasta tónlistarstefnan síðasta áratuginn. „Já eins og gerist í öllum löndum þar sem rappað er á frummálinu, það verður ofan á. Þó að fólk hafi ekki áhuga á tónlistinni þá hlustar fólk af því að það er á móðurmálinu, og tengir við það,“ segir Eyjó.

Aðspurður hvernig íslensk hiphop sena standi í dag, svarar hann. „Þegar ég var í menntaskóla, níutíu og eitthvað, þá var sveitaballatónlist það sem allir hlustuðu á. Í dag hefur hiphopið tekið við af þessu. Það eru börn að vaxa úr grasi sem hlusta ekki á tónlist með rafmagnsgítar, það er mjög fyndið. Eitthvað sem var óhugsandi á þeim tíma. Íslenskt hiphop hefur vaxið mjög mikið. Þessi Atlanta trap-hljómur er að verða búinn. Núna er ekki tómarúm, en ný staða. Við vitum ekki alveg hvað er að gerast næst,“ segir hann.

Hvað varðar ástæðurnar svarar Eyjó. „Ég held að það sé svo misjafnt hvernig fólk semur tónlist og texta. Það getur verið rosa auðvelt að gera fyrstu plötuna, það er aðdragandi að því. En að halda áfram og þróa sig áfram getur tekið tíma. Ég held að þetta sé samblanda af því og að trap-hljómurinn hafi klárast. Svo getur verið að þetta blandist inn í annað og meira. En það kemur bara í ljós,“ svarar Eyjó.

Mæðraveldið stígur á stokk á Lemmy klukkan tíu í kvöld.