Einn mannanna sem tók þátt í stórfelldu skartgriparáni á hótelherbergi Kim Kardashian í París árið 2016, hefur opnað sig um málið og kennir raunveruleikastjörnunni heimsfrægu um atburðina. Vice fjallar um málið.

Yunis Abbas hefur afplánað tveggja ára fangelsisdóm sem hann hlaut fyrir ránið. Ræningjarnir þóttust vera lögregluþjónar og bönkuðu upp á hjá Kim. Í kjölfarið bundu þeir hana og settu í baðkar hótelherbergisins. Síðan stálu þeir verðmætum sem voru metin á tíu milljón dollara, sem jafngilti rúmum milljarði króna.

Áður en ránið átti sér stað hafði Kim Kardashian verið dugleg að greina frá för sinni til Parísar á samfélagsmiðlum, sem vakti áhuga ræningjanna, sem voru á sjötugs- og áttræðisaldri.

„Hún var að kasta peningum á glæ. Ég var mættur til að hriða þá. Þannig var nú það. Sekur? Nei. Mér er sama,“ segir Abbas í viðtali við Vice. „Þau ættu ekki að gera þetta svona áberandi gagnvart fólki sem á ekki efni á þessu.“

Kim hefur tjáð sig um þau slæmu áhrif sem ránið hafði á sig, en hún hélt til að mynda að sér yrði nauðgað. Abbas viðurkennir að vissulega hafi gjörðir hans og samverkamanna hans verið áfall fyrir hana.