Helgarblaðið

Maður verður dofinn í neyslu

Verkið Tvískinnung, sem var frumsýnt í gær, byggir Jón Magnús Arnarsson á árum sínum í neyslu og af stormasömu ástarsambandi. „Leikritið var uppgjör mitt við óheiðarleikann,“ segir Jón Magnús.

Jón Magnús skrifaði leikverkið Tvískinningur sem var frumsýnt í gærkvöldi í Borgarleikhúsinu. Fréttablaðið/Anton.

Hver ertu þegar þú ert ekki þú sjálfur?

Þessari spurningu reynir ljóðaslammskáldið Jón Magnús Arnarsson að svara í nýju verki sem var frumsýnt í gærkvöldi. Tvískinnungi. Verkið er að hluta til byggt á reynslu hans sjálfs af neyslu og stormasömu ástarsambandi.

Jón Magnús hefur verið edrú í eitt og hálft ár. Er þetta hans upprisusaga?

„Það að ég hafi skrifað verkið. Og að það sé verið að setja það á svið. Það er mín upprisusaga. En verkið sjálft, sagan, hún er að hluta til byggð á lífi mínu og reynslu áður en ég komst á þann stað að geta nýtt reynsluna til að skrifa leikrit,“ segir hann. „Þetta eru sumpart minningar og tilfinningar úr minni fortíð. Ég leyfi skáldskapnum að flæða yfir það sem raunverulega gerðist. Í leikritinu eru atburðir sem raunverulega gerðust. Samtöl sem áttu sér stað. En mestmegnis skáldskapur,“ útskýrir hann.

Verkið fjallar um átök í lífi leikarapars. Þau eru ástfangin í hlutverkum sínum á sviði og eiga einnig í brothættu sambandi utan sviðs.

Í forgrunni eru samskipti fólks í samböndum, hvernig það er sjaldnast einn algildur sannleikur þegar tveir deila lífi. Leikritið er í bundnu máli og með aðalhlutverk fara Þuríður Blær Jóhannsdóttir og Haraldur Ari Stefánsson. Leikstjóri er Ólafur Egilsson.

Þó að Jón Magnús þreyti frumraun sína í leikhúsinu með sínu fyrsta handriti er hann ekki ókunnugur skáldskap. Hann er Íslandsmeistari í ljóðaslammi.

„Ég er á leiðinni á Evrópumeistaramót til Búlgaríu í lok nóvember. Svo fer ég seinna á heimsmeistaramótið í Nottingham 2019. Ég hef verið að reyna að starta þessari senu með Ólöfu Rún Benediktsdóttir myndlistakonu.

Þetta form tvinnar saman leik- og ljóðlist. Það er mikið um bundið mál þó stíllinn sé frjálslegur og virðist höfða bæði til yngri og eldri kynslóða.“

Jón Magnús greinir heiðarlega frá fortíð sinni.

„Ég var í stormasömu sambandi þar sem var mikið djamm. Við vorum bæði tvö svamlandi um í brestasúpu. Ég byggi svolítið á því þótt ég víxli oft hlutverkum okkar. Sambandið var markað af líferni okkar. Maður var sjálfur rosalega týndur og brotinn.

Hann segir tímann líða á ógnarhraða í sinnuleysi neyslunnar. „Áður en maður veit af er maður orðinn tvítugur. Svo er maður allt í einu orðinn þrítugur. Svo þrjátíu og fimm! Og alltaf að spóla í sama farinu. Þegar neyslan hefst svona snemma. Á þessum mótunarárum, þá staðnar maður á ýmsum sviðum. Það vindur upp á sig því þegar maður er dofinn í neyslu þá verða verkfærin bitlaus. Maður nær ekki að vinna úr lífinu. Hvort sem það eru bara ósköp hversdagslegir hlutir, samskipti við fólk eða áföll. Maður er bara fastur í því að vera ekki maður sjálfur,“ segir Jón Magnús hreinskilnislega.

Hvernig náðir þú því að komast hingað?

„Ég varð loksins edrú fyrir einu og hálfu ári síðan. Endanlega. Ég var tuttugu og fimm ára gamall þegar ég fór að brjótast um og reyna að losna. Ég náði að klára stúdentspróf í fjarnámi og að gera einstaka hluti sem gerðu mér gott. Ég fór til dæmis út til Kaupmannahafnar í diplómanám í leiklist. Eins konar trúðaskóla. En var samt útúrdjammaður allan tímann. En ég var þó að gera aðra hluti en sömu gömlu tugguna í Reykjavík. En svo kom ég heim aftur úr námi og datt beint í sama farið og aftur í sambandið,“ segir hann frá.

Hvað með hana? Sem þú skrifar um, gerir þú það í sátt við hana?

„Ég greindi henni frá því að ég hefði skrifað þetta. Hún var bara sátt við það. Þetta er heldur ekki realískt heimildarverk. Þó að rauði þráðurinn sé úr mínu lífi og byggi á reynslu minni og tilfinningum,“ segir Jón Magnús.

„Leikritið var uppgjör mitt við óheiðarleikann. Svona líferni kallar á að ljúga að sjálfum sér. Fegra hlutina þótt allt sé komið í óefni. Sem dæmi var ég líka að selja á þessum tíma. Fyrst var það aðallega gras en í kringum helgarnar seldi ég líka smáskammta af spítti og kóki. Ég gerði þetta aðallega til að fjármagna eigin neyslu. Ég var enginn gangster. Þetta var bara ákveðin lausn. Mér fannst rökrétt að gera þetta í staðinn fyrir að vinna eins og brjálæðingur fyrir neyslunni,“ segir Jón Magnús og segist oft hafa verið tekinn af lögreglu.

„Það hafði bara þær afleiðingar að ég var lengur í skuld og þurfti að selja meira. Ég var hins vegar aldrei handrukkaður þó að ég hafi upplifað alls kyns ofbeldi,“ segir Jón Magnús frá.


Jón Magnús byggir leikritið á árum sínum í neyslu. Anton Brink

Hann segir verst við neysluna að vera ekki maður sjálfur og vera sinnulaus um tilveru sína.

„Það að vera fastur í sinnuleysinu, það er skelfilegt. Það eru svo margir sem halda að þeir séu bara að djamma svolítið um helgar. En eru á þessum vonda stað. Ég held að við Íslendingar höldum flesta AA-fundi í heimi. Það er ótrúlegt hvað það eru margir fundir á dag víða um land. Þetta er þéttriðið net og það er ekki vanþörf á og segir mikið um umfang vandans,“ segir hann.

Þú sagðist áðan hafa staðnað. Nærðu töpuðum þroska til baka?

„Nei, þú nærð því ekki til baka. Þroskast bara á annan hátt. Ég upplifi það þannig að ég hafi skilið hluta af mér eftir. Ég var sérstakur krakki. Mjög úr tengslum við raunveruleikann. Var mikið inni í höfðinu á mér og ekki jarðtengdur. Svo þegar ég færðist á unglingsaldur þá fannst mér sjálfsmyndin ekki heil. Ég upplifði sjálfsmyndarleysi. Ég var bekkjartrúðurinn en var samt lokaður. Þegar ég byrjaði að djamma þá var mamma mjög hissa. Hún hváði bara og spurði: Ha? Þú? Og svo áður en ég vissi var ég orðinn fastur.“

Jón Magnús er úr mikilli leikarafjölskyldu. Foreldrar hans eru Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri og Arnar Jónsson leikari. Tvö systkina hans hafa gert það gott í heimi leiklistar, Þorleifur Örn sem á dögunum var valinn leikstjóri ársins í Þýskalandi og Sólveig sem hefur átt farsælan feril í leikhúsi og sjónvarpi á Íslandi og í Þýskalandi.

„Flestir karlmenn í fjölskyldunni eru alkóhólistar. Meira að segja tengdasynirnir,“ segir hann glettinn. „Konurnar, þær standa sterkar. Fá sér bara eitt rauðvínsglas og ekkert mál. Hvað er það?“ segir hann og hlær.

„Þegar bróðir minn varð edrú tók ég við og byrjaði í neyslu. Ég hef fengið mikla hjálp frá fjölskyldunni en gaf lengi lítið fyrir það.

Leiklistin, það er baktería? „Stóra bakterían í fjölskyldunni þótt ekki allir tilheyri þessum heimi. Oddný systir mín er til dæmis þrælmenntuð og að gera flotta hluti á öðrum sviðum. Mikil baráttukona fyrir betra samfélagi. Sumir eru hissa á því hvað ég virðist vita lítið um leikhúsið miðað við aðra í fjölskyldunni. Ég spurði hvað ég fengi borgað fyrir handritið og fólk var hissa. Það hugsaði kannski: Spurðu bara bróður þinn! En ég fékk kurteislegt svar og mér bent á að kíkja á heimasíðu Rithöfundasambandsins,“ segir hann og brosir.

„Ég er svakalega stoltur af bróður mínum Þorleifi. Við erum að plana að ég fari út, verði í ferli með honum, sitji í salnum og skrifi.

Ég get stundum verið fullur af sjálfsvorkunn yfir glötuðum tíma. En það gengur ekki. Ég er tvíefldur og það má búast við meiru frá mér. Það að týna sér svona, það er áfall. Þegar maður rankar loksins við sér þá nýtir maður hvern dag til hins ýtrasta og reynir að finna sátt. Mikið af tíma hefur farið í rugl. Það verður ekki aftur tekið. En núna er það að baki. Lengi vel henti ég öllu á haugana en nú vinn ég úr hlutunum. Nú ætla ég að lifa, anda, njóta og skrifa.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Helgarblaðið

Vínið geymt í hvelfingu

Helgarblaðið

Rappelskandi ráðherra með ráð undir rifi hverju

Helgarblaðið

Ég er öll að norðan

Auglýsing

Nýjast

Garðar kokkur brauðfæðir lávarðadeildina

335 milljóna endur­greiðsla úr ríkis­sjóði til Ó­færðar 2

Kominn tími á breytingar

Hall­grímur kláraði 60 kíló á átta vikum

Doktor.is: Normal Disorder?

Margir hugsan­lega á ein­hverfurófi sem þurfa enga hjálp

Auglýsing