„Þetta er í fyrsta sinn sem ég sýni eingöngu abstrakt verk,“ segir Kristín. „Ég ákvað þegar ég byrjaði að vinna abstrakt að gefa sjálfri mér mikið frelsi og engar kröfur á heillandi útkomu. Byrja bara og láta verkið vinna sig sjálft. Litur kallar á annan og skoðanir mínar um smekk fengu bara að bíða.

Ég lét tilfinninguna leiða mig áfram og treysti henni alveg, vildi alls ekki hafa einhverja hugmynd eða sögu. Það eina sem gilti var upplifunin í vinnsluferlinu, treysta því sem kæmi og byggja frekar á eðlishvöt en skoðunum og smekk. Samt blandast þetta óhjákvæmilega saman, sérstaklega þegar maður finnur að verkinu er lokið. Kannski snýst þetta um að draga áhersluna frá heilanum og hugmyndinni, nær hjartanu og líkamanum. Rannsókn og hugmynd hefur svo mikið vægi í samtímalist, stundum verður maður þreyttur á því.“

Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Mistök ekki til

Af hverju valdi hún þessa leið? „Ætli ég sé ekki bara komin á þennan stað, búin að mála lengi, í 30 ár, og þekki margar leiðir í málverki. Þannig veit ég í hverju ég er og þarf að sleppa og af hverju. Maður verður að kunna á sjálfan sig og vita hvar stjórnin hjá manni liggur til að geta sleppt henni.

Svo þykir mér áhugavert að vinna þvert ofan í það sem ég hefði haldið að myndi ganga upp og hætta rétt áður en ég tel öruggt að verkið sé búið. Þannig valdi ég stundum liti sem samkvæmt mínum smekk ganga ekki upp eða saman, bara til að ögra mér og sjá hvað kæmi út úr því. Þetta getur verið erfitt og ekki sjálfgefið að það gangi upp en það er aldrei leiðinlegt.“

Þetta lýsir sjálfstrausti, segir blaðamaður og Kristín svarar: „Já, kemur sjálfstraustið ekki bara með reynslunni og árunum? Núna veit ég að mistök eru ekki til í myndlist og í vinnsluferlinu, ljótt og fallegt tilheyra smekk og persónum. Maður verður bara að segja satt, viðbrögð annarra er þeirra mál. En það er alltaf gaman þegar einhver skilur hvað maður er að fara og er á einhvern hátt samferða.“

Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Orka í glimmer

Í nokkrum myndum má sjá glimmer. Börn, kannski sérstaklega stúlkur, hrífast af glimmeri en myndlistarmenn nota það venjulega ekki. „Þegar ég fór að heyra að það þætti ekki alvöru að vinna með glimmer, það væri kitch og stelpulegt, þá fór ég að vinna með það. Stundum gekk það upp, stundum ekki,“ segir Kristín. „Það er eitthvað við stelpuorkuna í glimmerinu sem er mjög skemmtilegt, því fylgir gleði og kraftur, en maður finnur líka þegar það getur verið hart og óþægilegt. Þessir fordómar gegn glimmeri fylgja ekki ungu fólki í myndlist í dag.“

Sum verkin á sýningunni hafa heiti, önnur ekki. Eitt glimmerverkið heitir Þetta má og annað heitir Þetta má líka. „Titlarnir koma áreynslulaust með verkunum, sumir hafa orðið til í tengslum við samskipti, eins og Ósagt og Sumt þarf að segja,“ segir Kristín.

Hentar að vinna stórt

Flest verkin á sýningunni eru stór. „Það hentar mér vel að vinna stórt,“ segir Kristín. „Ég set striga á gólfið og helli málningu yfir, læt fletina myndast af sjálfu sér og nota mjög stóra pensla til að vinna verkin. Svo hef ég minni verk til hliðar og þurrka jafnvel af málverkapenslunum á þau og þannig verða þau til. Mér finnst þetta henta minni skapgerð mjög vel þótt ég hafi líka gaman af fíngerðri vinnu. Það er óvissan og áskorunin í sköpunarferlinu sem er nauðsynleg og eflir mann.“

Blaðamaður spyr hvað hún ætli næst að taka sér fyrir hendur. „Það eru sýningar fram undan með ákveðnum verkefnum. Svo þarf maður hvíld frá vinnustofunni og hleður á tankinn með því að skoða meira og bara lifa. Þetta er allt þróun og fylgir þroska manns, það er það besta við að vera í listum, maður ætti að skána með aldrinum. Persónan tekur minna pláss og frelsið verður meira.“

Kristín útskrifaðist frá MHÍ árið 1987, nam íkonamálun í klaustri í Róm og stundaði nám í Accademia di belle Arti í Flórens. Hún hefur starfað að myndlist eingöngu frá námi, sýnt heima og erlendis og á verk í eigu helstu safna landsins.