Hrafn­hildur Haga­lín Guð­munds­dóttir sendi frá sér sína fyrstu ljóða­bók á dögunum, sem ber titilinn Skepna í eigin skinni. Hrafn­hildur hefur starfað sem leik­skáld, þýðandi og dramatúrg um ára­bil og getið sér gott orð fyrir störf sín á þeim sviðum. Hrafn­hildur segir ljóðin hafa kviknað þegar hún tók sér þriggja mánaða leyfi frá starfi sínu í Borgar­leik­húsinu fyrir þremur árum hvar hún starfaði sem list­rænn ráðu­nautur.

„Ég hafði aldrei gefið mér neinn tíma til þess að huga að skriftum á þessu tíma­bili þannig að ég var orðin svo­lítið lang­eyg eftir því og bað um leyfi og fór í þrjá mánuði til Frakk­lands og Spánar og var ekki með neitt sér­stakt plan. Ég fór í borgina Alcoy þar sem ég í rauninni hóf minn rit­höfundar­feril. Var áður í gítar­námi þar og svissaði svo yfir og fór að skrifa mitt fyrsta leik­rit, Ég er meistarinn. Ég var þarna í tvo, þrjá mánuði og fór að rifja upp alls konar sem hafði átt sér stað þar, þannig að ljóðin eigin­lega bara komu til mín.“

Í bókinni er mikið um borgar- og lands­lags­myndir en þú ert líka að fjalla um til­finningar og minningar, mætti kannski segja að þetta væri ein­hvers konar kontra­punktur á milli hins innra og ytra lands­lags?

„Já, það má kannski segja það. Það var eigin­lega dá­lítið merki­legt að koma þarna aftur af því að það er náttúr­lega langur tími liðinn og það er nú eitt það skemmti­lega við að eldast að maður sér alltaf hlutina í nýju og nýju ljósi og fattar að maður er eigin­lega margar per­sónur yfir ævina. Að koma aftur á þennan stað og rifja alls konar upp og upp­götva það hvað minningin er hál og hvað líkaminn getur geymt mikið af alls konar til­finningum og minningum sem maður kannski nær ekki alveg yfir vits­muna­lega.“

Kápa/Alexandra Buhl/Forlagið

Þannig að það var ekki mikil á­reynsla að skrifa bókina?

„Nei, í rauninni ekki og ég fór að lesa mikið ljóð, ég hef nú alltaf lesið tölu­vert af ljóðum og haft gaman af því. Það hafa margir sagt að leik­ritin mín sum séu ljóð­ræn þannig að þetta er svo sem alveg í sam­hengi við það sem ég hef gert áður.“

Hrafn­hildur segist sam­mála því að ljóð og leik­rit séu skyld fyrir­bæri að því leytinu til að formin séu bæði mjög knöpp.

„Ljóð eru kannski svona eins og litlar óperur í sjálfu sér, þau sam­ræma í rauninni allar list­greinarnar, þau eru með hrynjandi og þau eru mynd­list og það er hægt að flytja þau eins og litla leik­þætti. Hrynjandin í tungu­málinu í ljóði er líka í takt við leik­rit að því leytinu til að þau eru flutt og það er hlustað á þau, ljóðin náttúr­lega hófu sinn feril þannig að þau voru mælt af munni fram,“ segir hún.

Er ein­hvers meira að vænta frá þér í ljóð­listinni eða heldurðu að þú munir snúa þér aftur að leik­ritun?

„Já, það er aldrei að vita. Ég er með alls konar í bí­gerð og langar til þess að fara að gefa skriftum meiri tíma. Ég er náttúr­lega búin að vera í leik­húsinu núna alveg í átta ár í fullu starfi og rúm­lega það þannig að þetta kallar á orðið,“ segir Hrafn­hildur að lokum.

Það er nú eitt það skemmti­lega við að eldast að maður sér alltaf hlutina í nýju og nýju ljósi og fattar að maður er eigin­lega margar per­sónur yfir ævina.