Óhugnanlegt morð á hinni þrítugu sænsku blaðakonu Kim Wall á síðasta ári gleymist seint. Lífstíðardómur var kveðinn upp í vor yfir Dananum Peter Madsen sem játaði að hafa hlutað lík hennar í sundur og fleygt í sjóinn.

Kvenhylli Madsen hefur ekki gufað upp þrátt fyrir þennan óhugnanlega verknað, þvert á móti virðist hann eiga sér aðdáendur víða. Skammt er síðan að kvenkynsfangaverði var vikið úr starfi fyrir að eiga í bréfasambandi við morðingjann.

Danskir fréttamiðlar greina frá því að 18 ára stúlka sjái ekki sólina fyrir honum og eigi í stöðugu bréfasambandi við hann. Stúlkan sem heitir Natascha Colding - Olsen situr sjálf í fangelsi fyrir að skipuleggja hryðjuverkaárás á skóla þegar hún var 15 ára gömul. Hún gengur undir nafninu Kundby-stúlkan sem vísar til bæjarins þar sem hryðjuverkin áttu að eiga sér stað.

Áhyggjufull móðir

Samskipti þeirra hófust eftir að Madsen var fluttur frá Storstrom fangelsinu og færður til afplánunar í Herstedvester þar sem Kundby-stúlkan situr af sér átta ára dóm.  

Cecilie Colding-Olsen móðir Natöschu er sögð mjög áhyggjufull yfir samskiptum dóttur sinnar og  Madsen. „Já að sjálfsögðu er ég uggandi yfir þessu, annað væri óvenjulegt hún er nú einu sinni dóttir mín,“ – sagði Cecilie í samtali við Ekstra Bladet. Danskir fjölmiðlar fylgjast grannt með framvindu málsins.