Kolbeinsey

Bergsveinn Birgisson

Útgefandi: Bjartur

Fjöldi síðna: 208

káldsagan Kolbeinsey er að ýmsu leyti sérkennileg. Aðalpersónur eru þrjár, sögumaður, þunglyndur vinur hans og hjúkrunarkona sem kallast Maddam Hríslukvist eða bara Maddaman. Þetta með hríslukvistinn tengist því að hún er girt hrísvendi eins og sverði. Í hrísvendinum er falin rafkylfa og „stórir strákar fá raflost“, ef þeir haga sér ekki vel.

Sögumaður er vel settur í samfélaginu. Kærastan hans er blíð og góð, hann býr fallega og á að halda fyrirlestraröð. Þunglyndi vinurinn má vart mæla framan af, en færist í aukana þegar á líður. Sögumaðurinn skrópar í vinnunni til þess að hlúa að honum. Hjúkrunarkonan sem annast þunglynda vininn er andstyggilegur svarkur og því lengra sem líður, þeim mun ljósari verður fólska þeirrar illu gribbu.

Í upphafi eru skýr skil milli persóna. Sögumaðurinn er góður í sér og reynir að hjálpa niðurbrotnum og þunglyndum vini. Þegar hagur sjúklingsins lagast hallast hins vegar á merinni hjá sögumanni. Seinna verður stundum vafasamt hvort vinirnir eru einn maður eða tveir og ef þeir eru tveir, hvor á þá við meiri örðugleika að stríða. Hjúkrunarkonan er bölvaldurinn í lífi þeirra og reynir stöðugt að lækna þá af tilfinningasemi og skáldskap. Reyndar verður smám saman ljóst að þeir eru engir englar heldur.

Sögumaðurinn hjálpar vini sínum að strjúka af geðsjúkrahúsinu og meginhluti sögunnar gerist á æðisgengnum flótta þeirra tveggja. Látið er að því liggja að sadistar þjóðarinnar hafi komið sér fyrir í heilsugæslunni eftir að flest unglingaheimili voru lögð niður og vissulega er hjúkrunarkonan illvíg. Hún geysist á eftir þeim yfir allt Suðurlandið á ógnvekjandi hvítum Yaris (!) en sú þjóðvegadramatík verður ekki rakin hér.

Í hugsanagangi sögunnar er töluverður Rousseau-ismi, rétt eins og í Lifandilífslæk sama höfundar. Einlægar tilfinningar, náttúra og fagurt manneðli verður andstæða siðmenningar, fjölmennis og þeirrar aðhæfingar sem nútímasamfélagið krefst. Opinberar stofnanir eru böl, þeim fylgja skilgreiningar á geðheilbrigði og aðlögun að samfélaginu. Vinirnir berjast gegn þeim heiladauða sem krafist er af þeim. Í Kolbeinsey getur hinn lúmski og illi nútími hins vegar ekki lifað. Þar eru engar stofnanir og ekkert „nútímasamfélag“. Þar er hægt að finna „myndlíkingarnar í hjartanu“.

Viðhorf sögunnar til fjölmennis og fámennis, siðmenningar og náttúru getur varla talist einhlítt, þó að vissulega sé það vel þekkt. Margir hafa leitað úr fásinninu og inn í fjölmennið til þess að vernda „myndlíkingarnar í hjartanu“. Maður er manns gaman. Hér er rými fyrir íhuganir og ágreining.

Frá öðru sjónarhorni má segja að sagan fjalli um það hve erfitt er að verða fullorðinn og skilja að æskan er horfin, skáldskapurinn í brjóstinu heldur ekki gildi sínu í hörðum heimi fullorðinna og það er engin leið til baka. Kolbeinseyjar bernsku okkar molna undan sjógangi tímans og þar er erfitt að ná landi. Margir öflugir rithöfundar hafa tekist á við þennan vanda, sem er bæði gamall og nýr. n

Niðurstaða: Sérkennileg og fjörleg skáldsaga sem þykist vera raunsæ en er þó líka furðusaga. Sagt er frá bílaeltingaleik, prjónandi vélsleðum og hörðum átökum við illa hjúkrunarkonu.