Það erfiðasta við að vera píanisti er fullkomnunaráráttan. Maður sættir sig illa við annað en að spila af fullkomnun,“ segir einleikarinn Alexander Edelstein sem sest í tvígang við flygilinn um páskana til að flytja einn fegursta píanókonsert sögunnar; píanókonsert nr. 20 í d-moll eftir Wolfgang Amadeus Mozart.

„Ég hlakka mikið til. Verkið tekur rúman hálftíma í flutningi, sem er mjög spennandi og mikil áskorun. Ég byrjaði að æfa konsertinn strax í fyrrasumar svo ferlið hefur verið langt en allan tímann skemmtilegt. Það er hefð hjá einleikurum að flytja verkin nótnalaust og því hef ég lært það utan að og nota engar nótur,“ upplýsir Alexander.

Hann óttast í engu að fipast á nótnaborðinu í strembnum hálftíma píanóslættinum.

„Nei, það geri ég ekki og ef hugur manns dveldi við slíkt ykist hætta á því að maður slægi feilnótu. Þetta er vitaskuld heilmikil pressa og maður þarf að vera afar varkár þegar maður lærir tónverk utan að. Þá má ekki eingöngu reiða sig á vöðvaminnið, að puttarnir viti hvað þeir gera næst, heldur spilar hljómfræði og margt fleira inn í. Mestu skiptir þó að tónlistarlega sé flutningurinn gefandi og músíkalskur,“ segir Alexander, hvergi banginn.

Með tónlist í æðunum

Alexander verður 21 árs í maí. Honum er tónlistin í blóð borin og í æðum hans rennur blóð tónlistarfólks sem setti mark sitt á íslenska tónlistarsögu.

„Langafi minn, Heinz Edelstein, var virtur sellóleikari og tónvísindamaður sem kom til Íslands þegar hann flúði nasismann í Þýskalandi. Hann fór svo aftur utan til að sækja fjölskylduna og hafði mikil áhrif á íslenskt tónlistarlíf, stofnaði Barnamúsíkskólann sem nú er Tónmenntaskóli Reykjavíkur og kenndi kennaraefnum í Kennaraskólanum tónlist og tónlistaruppeldi, ásamt því að vera fyrsti sellóleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands og fleiri hljómsveitum fyrir stofnun hennar,“ upplýsir Alexander sem ber stoltur nafn forföður síns.

„Já, ég er ákaflega stoltur af að vera afkomandi hans og að bera ættarnafn sem er svo samofið tónlist. Pabbi minn, Kristján Edelstein, er kunnur gítarleikari sem bæði kennir, útsetur og spilar tónlist, og föðursystkini mín Daníel og Ylfa lærðu einnig á hljóðfæri, selló og fiðlu, og ólust upp við gott tónlistaruppeldi, rétt eins og ég sjálfur. Öll hafa þau sýnt mér mikla hvatningu og dýrmætan stuðning í hvívetna á leið minni á tónlistarbrautinni,“ segir Alexander sem lærði fyrst á selló og síðan gítar á æskuárunum.

„En ég fann mig í hvorugu og það var ekki fyrr en ég fór í fyrsta píanótímann að ég var kominn á rétta hillu, þá ellefu ára. Eftir það var ég staðráðinn í að fara í háskólanám í píanóleik og þurfti aldrei að segja mér að setjast niður við píanóið til að æfa, ég hafði alltaf brennandi löngun til þess og finnst það enn óendanlega gaman.“

Fórnirnar eru vel þess virði

Alexander er fæddur og uppalinn á Akureyri. Í haust flutti hann til Reykjavíkur ásamt kærustunni Andreu Ósk Margrétardóttur og hóf nám við einleikaradeild Listaháskóla Íslands. Þau eru listelskt par því Andrea stefnir á nám í fatahönnun.

„Dæmigerður dagur í lífi háskólanema hefst á bóklegum fögum fyrir hádegi og allir píanistar fá einn píanótíma í viku, auk hóptíma og masterklass. Síðan fer restin af deginum í að æfa sig en mér finnst best að setjast við píanóið eftir klukkan fimm á daginn og kvöldin nýtast mér best. Suma kafla þarf að æfa alloft en ég æfi mig í skólanum og trufla því enga ergilega nágranna með endurteknum æfingum,“ segir Alexander kíminn.

Alls eru nú átta píanistar í einleiksnámi við Listaháskólann.

Þolinmæði, sjálfsagi og ástríða eru góðir kostir píanista, segir Alexander.
FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGURARI

„Það getur verið ansi einmanalegt að vera alltaf einn í herbergi að æfa sig í sex tíma á dag og þá er gott að vita af fleirum sem eru á sama báti. Við einleiksnemarnir spjöllum mikið um tónlistina og lífið og eigum það sameiginlegt að vita hversu mikil vinna það er að feta þessa braut. Því fylgir auðvitað einhver fórn og maður kemst ekki alltaf til þess að gera allt sem mann langar til en þegar upp er staðið finnst mér það allt þess virði,“ segir Alexander sem hefði snúið sér að sálfræði ef píanóið ætti ekki hug hans allan.

„Píanónámið er það eina sem ég hef alltaf stefnt að og ég stefni ótrauður á meistaranám ytra að BA-náminu loknu. Mér finnst svo gefandi að spila þessa mögnuðu tónlist sem hefur mótað mig sem manneskju, líklega meira en ég átta mig sjálfur á. Maður uppsker mikinn aga, þolinmæði og einbeitingu, og sem nýtist manni vel á öðrum sviðum lífsins líka.“

Tekur eitt skref í einu

Í Listaháskólanum stundar Alexander nám undir handleiðslu Peters Máté. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri í fyrravor og vorið þar á undan útskrifaðist hann úr Tónlistarskólanum á Akureyri eftir að hafa stundað píanónám hjá Þórarni Stefánssyni.

„Maður þarf fyrst og fremst að hafa gríðarlega ástríðu fyrir því sem maður er að gera, elska að æfa sig og hafa mikinn sjálfsaga til að geta náð langt sem einleikari á píanó,“ segir Alexander sem hefur tvívegis unnið fyrstu verðlaun í píanókeppni EPTA (Evrópusambands píanókennara), árin 2012 og 2015, og fékk sérstök verðlaun sem einleikari þegar hann tók þátt í Nótunni, uppskeruhátíð tónlistarskólanna, 2012.

„Verðlaunin eru mér mikils virði og hafa verið mér hvatning og viðurkenning á því að ég sé á réttri leið. Ég tek eitt skref í einu, vil ljúka náminu hér heima og fara utan í enn frekara nám. Ég reyni svo að hugsa ekki um of um framhaldið og held mér á jörðinni og í núinu.“

Fjögur tónskáld eru í mestu metum hjá Alexander.

„Efstur á blaði er Beethoven, en svo að sjálfsögðu Mozart, Bach og Schubert. Ekkert eitt tónverk er í mestu dálæti hjá mér en ég held mikið upp á Goldberg-tilþrifin eftir Bach og síðustu píanósónötu Schuberts, svo eitthvað sé nefnt. Það fyrrnefnda hlusta ég mikið á í bílnum þessa dagana,“ upplýsir Alexander.

„Enginn einn umfram annan hefur heldur haft áhrif á mig sem tónlistarmann, en að fara á góða tónleika og hlusta á flotta listamenn getur virkað mjög hvetjandi. Þá langar mig helst að fara strax inn í æfingarherbergi og leika af fingrum fram,“ segir Alexander sem hefur aðeins fengist við að semja tónlist og þvertekur ekki fyrir að gera meira af því í framtíðinni.

Hann velkist ekki í vafa um hvaða klassíska tónverk hann mælir með að allir kynni sér einu sinni á lífsleiðinni.

„Það er verkið Myndir á sýningu eftir Mussorgsky. Magnað verk!“

Ofurhugi á hjólabretti

Alexander á yngri systur og tvíburabróðurinn Sólon Arnar sem nú leggur stund á nám í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri.

„Sólon lærði lengi vel á gítar og grípur enn í gítarinn. Við eigum margt sameiginlegt, eins og fluguveiði og förum oft að renna fyrir fisk með félögum okkar á sumrin. Þar er Eyjafjarðará klárlega í uppáhaldi,“ segir Alexander og hlakkar til komandi veiðiferða í sumar.

Á unglingsárunum vöktu þeir bræður mikla athygli sem ofurhugar á hjólabrettum.

„Við renndum okkur iðulega fram af húsþökum af mátulegu kæruleysi unglingsáranna en ég tek ekki áhættuna á að handleggs- eða puttabrjóta mig í dag. Það er of mikið í húfi og ég get lofað að ég fer ekki á bretti fyrir tónleikana fram undan!“ segir Alexander hláturmildur.

Hann hlustar lítið á popp og rapp en stundum rokk.

„Þegar ég er búinn að æfa mig tímunum saman á píanóið og vil ekki fara beint heim í klassíska hlustun finnst mér gott að dreifa huganum og hlusta á djass. Annars hef ég mikla þrá til að hlusta á klassíska tónlist og leitaði hana uppi á netinu þegar ég var barn. Það er kannski óvenjulegt af barni og unglingi en ætli ég sverji mig ekki í Edelstein-ættina með klassíska áhugann,“ veltir Alexander fyrir sér.

Hann segir píanóið verða eins og góðan vin.

„Hvert og eitt píanó hefur sinn persónuleika. Maður situr lengi við það og því fylgir ákveðin tilfinning. Því verða sum píanó betri og manni kærari en önnur.“

Gefur sig allan við flygilinn

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands stendur fyrir tvennum stórtónleikum í páskavikunni þegar tvö af stærstu verkum Mozarts verða flutt í Hofi á Akureyri og í Langholtskirkju í Reykjavík. Annað er Sálumessa Mozarts í flutning Kammerkórs Norðurlands og Söngsveitarinnar Fílharmóníu en rúsínan í pylsuendanum er einleikur Alexanders sem spilar nyrðra á skírdag og syðra á föstudaginn langa.

„Tónlist Mozarts er fyrir alla, hvort sem fólk hlustar á klassíska tónlist heima eða ekki. Hún er falleg, spennandi og allt þar á milli og ég hvet fólk til að koma, lygna aftur augunum og njóta magnaðrar tónlistar,“ segir Alexander og lofar stórkostlegri tónlistarveislu.

„Tónlist Mozarts er uppfull af tilfinningum og ég reyni að njóta mín við píanóið og hugsa ekki of mikið. Ég einblíni bara á tónlistina og verð einbeittur við verkefnið. Einleikari þarf að setja líkama og sál í flutning sinn og ég mun gefa mig allan í verkið, upplifa það til fulls og njóta af ástríðu. Ef ég veit að ég hef gefið mig allan í flutninginn og útkoman var góð mun ég sannarlega standa sáttur upp frá flyglinum.“