Tón­listar­konan Katrín Helga Andrés­dóttir, betur þekkt sem Special-K, syngur iðu­lega um dag­legt amstur í lífi ungrar konu. Á morgun gefur hún út glæ­nýtt lag og mynd­band við lagið Post Coi­tal sem fjallar um lægðina sem fylgir miklum hæðum í lífinu.

„Titill lagsins er til­vísun í læknis­fræði­lega hug­takið Post Coi­tal Dysphoria, sem er á­kveðið ástand sem getur fylgt kyn­lífi,“ segir Katrín í sam­tali við Frétta­blaðið. Tilfinnigin lýsir sér í lægð sem getur læðst ó­vænt upp að fólki við ó­líkar að­stæður í lífinu að mati Katrínar.

Svipuð upplifun í djammi og kyn­lífi

„Ég samdi lagið þegar ég var ný­flutt til Ber­línar og djamm varð mun stærri partur af hvers­deginum en ég var vön.“ Sam­band fólks í skemmtana­lífinu við á­vana­bindandi efni var Katrínu nokkuð hug­leikið um tíma og velti hún þeirri menningu mikið fyrir sér.

„Vin­kona mín benti mér á að einnar nætur gaman er að mörgu leiti líkt því að taka eitur­lyf; kvöldið endar á því að snúast um þennan eina hlut, þú færð á­kveðið rush, stóran skammt af endorfínum og dópa­míni en situr gjarnan eftir með tóm­leika­til­finningu daginn eftir.“

Úr þessum hug­leiðingum varð lagið þar sem Katrín syngur um nándar frá­hvörf á hinum ýmsu sviðum í glæsi­legum búning.

Tómleikatilfinning getur fylgt því að ná miklum hæðum í lífinu að mati Katrínar.
Mynd/Kristín Helga Ríkharðsdóttir

Fyrsti fundurinn á við stefnu­mót

Lista­konan Margrét Bjarna­dóttir leik­stýrði mynd­bandinu en hún hefur unnið með lista­mönnum á borð við Björk og Ragnar Kjartans­son. Katrín segir það hafa verið mikinn heiður að fá að starfa með henni við þetta verk­efni.

„Hún er búin að vera einn upp­á­halds lista­maðurinn minn í um tíu ár. Þegar við fórum á fyrsta fundin var ég með svipuð fiðrildi í maganum og þegar ég fer á stefnu­mót með ein­hverjum sem ég er mjög skotin í.“

Tíma­bundinn raun­veru­leika­flótti

Katrín á­kvað fljótt að láta ekki undar­legt á­stand í heiminum hefta út­gáfu lagsins enda enn nóg af rými til að hlýða á góða tón­list.

„Það kom til greina að fresta út­gáfunni vegna á­standsins í þjóð­fé­laginu, en ég var inn­blásin af öðru tón­listar­fólki sem lét það ekki stoppa sig og á­kvað að láta slag standa. Ég held það sé fínt fyrir fólk að geta dreift huganum í þrjár mínútur frá á­standinu og sogast inn í ein­hvern allt annan heim.“

Höfuðskraut Katrínar er úr smiðju Tönju Levý, fatahönnuðar.
Mynd/Kristín Helga Ríkharðsdóttir