Tónlistarkonan Katrín Helga Andrésdóttir, betur þekkt sem Special-K, syngur iðulega um daglegt amstur í lífi ungrar konu. Á morgun gefur hún út glænýtt lag og myndband við lagið Post Coital sem fjallar um lægðina sem fylgir miklum hæðum í lífinu.
„Titill lagsins er tilvísun í læknisfræðilega hugtakið Post Coital Dysphoria, sem er ákveðið ástand sem getur fylgt kynlífi,“ segir Katrín í samtali við Fréttablaðið. Tilfinnigin lýsir sér í lægð sem getur læðst óvænt upp að fólki við ólíkar aðstæður í lífinu að mati Katrínar.
Svipuð upplifun í djammi og kynlífi
„Ég samdi lagið þegar ég var nýflutt til Berlínar og djamm varð mun stærri partur af hversdeginum en ég var vön.“ Samband fólks í skemmtanalífinu við ávanabindandi efni var Katrínu nokkuð hugleikið um tíma og velti hún þeirri menningu mikið fyrir sér.
„Vinkona mín benti mér á að einnar nætur gaman er að mörgu leiti líkt því að taka eiturlyf; kvöldið endar á því að snúast um þennan eina hlut, þú færð ákveðið rush, stóran skammt af endorfínum og dópamíni en situr gjarnan eftir með tómleikatilfinningu daginn eftir.“
Úr þessum hugleiðingum varð lagið þar sem Katrín syngur um nándar fráhvörf á hinum ýmsu sviðum í glæsilegum búning.

Fyrsti fundurinn á við stefnumót
Listakonan Margrét Bjarnadóttir leikstýrði myndbandinu en hún hefur unnið með listamönnum á borð við Björk og Ragnar Kjartansson. Katrín segir það hafa verið mikinn heiður að fá að starfa með henni við þetta verkefni.
„Hún er búin að vera einn uppáhalds listamaðurinn minn í um tíu ár. Þegar við fórum á fyrsta fundin var ég með svipuð fiðrildi í maganum og þegar ég fer á stefnumót með einhverjum sem ég er mjög skotin í.“
Tímabundinn raunveruleikaflótti
Katrín ákvað fljótt að láta ekki undarlegt ástand í heiminum hefta útgáfu lagsins enda enn nóg af rými til að hlýða á góða tónlist.
„Það kom til greina að fresta útgáfunni vegna ástandsins í þjóðfélaginu, en ég var innblásin af öðru tónlistarfólki sem lét það ekki stoppa sig og ákvað að láta slag standa. Ég held það sé fínt fyrir fólk að geta dreift huganum í þrjár mínútur frá ástandinu og sogast inn í einhvern allt annan heim.“
