Íslenska hasarmyndin Leynilögga var frumsýnd í vikunni. Fréttablaðið lagði lykilspurninguna: Hvernig er Leynilögga? fyrir þrár frumsýningargesti, sem svo skemmtilega vill til að öll hafa einhverjar tengingar við Framsóknarflokkinn.

Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra segist hafa skemmt sér vel og bíður spennt eftir framhaldsmynd á meðan Sigurður Ingi Jóhannsson, flokksbróðir hennar og samgönguráðherra, veltir fyrir sér hvort efni myndarinnar kalli á athugun dómsmálaráðherra.

Bíður eftir framhaldi

„Þetta er skemmtileg og kraftmikil mynd,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. „Allir leikararnir voru í essinu sínu og söguþráður myndarinnar gekk upp.

Mér fannst skemmtilegur rígur á milli sveitarfélaga og hlakka mjög til að sjá framhaldsmyndina. Þessi frumraun Hannesar sem leikstjóra jafnast á við þegar hann varði markið frá Messi! Virkilega vel gert!“

Kallar á minnisblað

„Leynilögga er svakalega fyndin og kraftmikil mynd. Ég hló mikið. Samkvæmt myndinni er mikill rígur milli Reykjavíkurlöggunnar og Garðabæjarlöggunnar. Held að dómsmálaráðherra þurfi að kafa ofan í það mál. Það kallar á minnisblað fyrir ríkisstjórn,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Varð átján aftur

Björn Ingi á Viljanum vísaði á vefsíðu sína þar sem hann gerir bíóferðina upp í lengra máli og segir meðal annars: „Mér leið eins og ég væri orðinn átján aftur á frumsýningu Leynilöggunnar. Sonur minn, sem er að verða átján, var enda með í för, og saman hlógum við og hlógum að því sem fyrir augu bar á hvíta tjaldinu.

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra og Björn Ingi á Viljanum skemmtu sér ekki síður en Sigurður Ingi vel á frumsýningu Leynilöggu.
Fréttablaðið/Samsett

Leynilöggan er frábær afþreying, reynir aldrei að vera eitthvað meira en hún er, og fyrir vikið skemmta sér allir konunglega," skrifar Björn Ingi og bætir síðar við:

„Hannes Þór þarf engar áhyggjur að hafa. Ég spái því að landsmenn muni flykkjast á þessa mynd. Hollywood verður heldur ekki lengi að þefa uppi þá hæfileika sem þarna búa og fá honum alvöru fjármagn til að gera stórmyndir á næstu árum.“