Verðhækkun á þriðjudagstilboði Domino’s úr 1.000 krónum í 1.100 krónur hefur vakið mikla athygli og umtal í vikunni.
Fréttablaðið leitaði til fólksins í landinu og spyr: Hvað finnst þér?
Hefur ekki borðað Domino’s í mörg ár

„Mér er svona slétt sama. Ég er með glúteinóþol og hef ekki borðað Domino’s í nokkur ár.“ Hafþór borðar bara pitsur með ketó/blómkáls/glúteinfríum botni.
Hélt Domino’s í Kringlunni uppi

„Á tíma mínum hjá Fréttablaðinu var ég nær undantekningarlaust á kvöldvöktum á þriðjudögum. Þá hafði ég það fyrir sið að panta þriðjudagstilboð fyrir mig og aðra sem vildu. Þetta var fastur liður í tilverunni. Þetta var orðið þannig að Nour, verslunarstjórinn í Kringlunni, var hættur að spyrja mig um nafn og símanúmer. Þess í stað nikkaði hann mig bara og rétti mér kassastaflann.
Þegar ég fór á Viðskiptablaðið hættu þessar kvöldpantanir. Þannig að þetta komment er aðallega hugsað til þess að Nour viti að ég er sprelllifandi og í fullu fjöri. Mér reiknaðist einhvern tímann svo til að ársvelta Domino's í Kringlunni, bara mitt kort, hafi slagað langleiðina upp í sjö stafa tölu enda vorum við stundum nálægt tíu pitsum í hverri pöntun. Hvað hækkunina varðar hef ég samúð með staðnum og vona bara að þeim takist aftur að halda í sama verð í áratug.“
Vælubíllinn er í 113

„Mitt take er … þetta eru bara fokking 100 krónur og númerið hjá vælubílnum er 113.“