Hvernig við öndum hefur áhrif á hversu mikið súrefni er losað frá lungum út í blóðrás og frá blóði til heila, fruma og annarra vefja. Öndunarfærasjúkdóma og aðrar truflanir í öndunarfærum má oftar en ekki rekja til lélegs öndunarmynsturs sem hefur neikvæð áhrif á heilsu. Í íþróttum, jóga, slökun og lífinu almennt er okkur oft sagt að „draga andann djúpt“ til þess að fylla líkamann af súrefni og ná betri ró. Þessar ráðleggingar leiða hins vegar til verri upptöku á súrefni í líkamanum. Öndun ætti frekar að vera létt, hljóðlát og nánast ósýnileg í hvíld,“ segir McKeown.

Fréttablaðið fékk McKeown til að ræða aðeins um mikilvægi öndunar og nefna einfaldar aðferðir til að auka einbeitingu.

Þrjú góð lykilatriði að betri einbeitingu eru góður svefn, góð orka og afslappaður hugur. Til þess að fá góðan svefn og mikla orku er mikilvægt að anda í gegnum nefið yfir daginn og einnig á nóttunni. Rannsóknir hafa sýnt fram á það að öndun í gegnum munninn dregur úr góðum svefni og og eykur líkurnar á svefntruflunum. Einstaklingar sem eiga erfitt með að anda með nefinu eru tvöfalt líklegri til að eiga í erfiðleikum með svefn. Ef þú vaknar með þurran munn, ertu ólíklegri til þess að vakna hress.

Til að losa um í nefinu er gott að halda niðri í sér andanum eftir útöndun

1. Andaðu hljóðlega að þér og andaðu svo hljóðlega út í gegnum nefið.

2. Klemmdu fyrir nasirnar með fingrunum til að halda inni andanum.

3. Kinkaðu kolli varlega, upp og niður (eða ruggaðu líkamanum), á meðan þú heldur niðri í þér andanum. Reyndu að byggja upp stórt lofttæmi án þess að ofgera þér.

4. Þegar þú byrjar síðan að anda á ný, gerðu það í gegnum nefið. Róaðu öndunina strax niður:

Þegar hugurinn festist í ofhugsun og þá sérstaklega í neikvæðri hugsun, þá er gott að æfa sig í að einblína á andardráttinn og hægja á honum. Að venja sig á góða öndunartækni, líkt og hæga öndun í gegnum nefið sem stuðlar að hugarró. Þvert á móti stuðlar munnöndun að hraðri öndun, þar sem andardrátturinn leitar upp í brjóstkassa, sem er ekki góð uppskrift að hugarró. Djúpöndun snýst um að anda hljóðlega og með þindinni.

Eigin heilsa á hærra plan

Rafn Franklin, heilsu- og einkaþjálfi, ákvað að fá McKeown til landsins eftir að líf hans breyttist til muna þegar hann fór að kynna sér aðferðafræði hans.

„Ég ákvað að fá Patrick til landsins því ég er breyttur maður. Bækur hans og aðferðir sem hann kennir hafa hjálpað mér að taka eigið heilsufar upp á hærra plan, allt frá bættum svefni, meiri orku og vellíðan yfir í aukið þol og afköst í líkamsrækt,“ segir Rafn.

Hann greindist með kæfisvefn eftir að maki hans kvartaði yfir hrotum og benti Hrönn Róbertsdóttir tannlæknir Rafni á  Patrick en hún hefur nýtt sér fræði hans í starfi sínu.

„Undanfarin ár hefur Hrönn einblínt á vinnu með börnum. Hún leiðbeinir börnum og foreldrum þeirra í gegnum ákveðnar öndunaræfingar og tillögur að breyttu mataræði og með því er hægt að minnka líkurnar á tannskekkju og bæta heilsufar barnanna,“ segir Rafn. „Ég varð undrandi yfir upplýsingunum sem hann hafði fram að færa og ákvað samstundis að næla mér í nýjustu bókina hans, The Oxygen Advantage. Ég var varla kominn í gegnum fyrsta kaflann þegar ég hugsaði með mér: „Af hverju er þetta ekki almannavitneskja?““

Hrönn verður einnig með erindi á fyrirlestrinum, „Er barnið þitt besta útgáfan af sjálfu sér?“