Bocelli heldur tónleika í Kórnum í Kópavogi á morgun. Þar kemur einnig fram sinfóníuhljómsveitin Sinfonia Nord og kór frá Söngsveitinni Fílharmóníu, auk gestasöngvara. Kórnum verður í fyrsta sinn breytt í sitjandi sal og verða þetta stærstu sitjandi tónleikar Íslandssögunnar.

„Þetta var flókið og fordæmalaust tímabil fyrir alla. Heimsfaraldurinn er sár áminning um að heimurinn er ein stór fjölskylda og allt tengist innri böndum. Þessi þvingaða pása olli mér þjáningum en ég áttaði mig á því að ég bjó við gríðarleg forréttindi, þar sem ég fékk að verja þessum tíma með fjölskyldunni minni,“ segir Bocelli í samtali við Fréttablaðið, aðspurður um líðanina síðustu tvö ár.

Heimsfaraldurinn kveikti neista

„Að sjálfsögðu upplifði ég þungar áhyggjur og gremju yfir því sem átti sér þarna stað. En ég nýtti tækifærið til að verja meiri tíma með börnunum mínum, að læra nýja hluti, hlusta á tónlist, lesa og semja nýja tónlist,“ segir hann. Meðal slíkra verkefna er tónlist við Ave Mariu-bænina, sem kom út á nýjustu plötu tenórsins, Believe.

Hann segir heimsfaraldurinn „svo sannarlega“ hafa verið kveikjan að plötunni. „Og áhyggjur af þessu djúpa heilsufarslega og félagslega sári sem hafði myndast í heiminum. Ég var mjög sleginn yfir því að þessi alþjóðlegi stormur, sem eitraði allt með skelfingu, bitnaði svo harkalega á listum og menningu.“

Mikilvæg tenging úr skorðum

Aðspurður um tilfinningar gagnvart hléi frá tónleikahaldi, svarar hann: „Ég þurfti að hætta að koma fram, í fyrsta sinn á tuttugu og fimm ára ferli. Þetta olli margra mánaða skerðingu á sambandi mínu við aðdáendur, á tengingu sem myndast eingöngu í gegnum lifandi flutning. En ég kom fram á fjölda streymistónleika, af illri nauðsyn, sem sýndir voru um allan heim,“ segir hann.

Bocelli situr ekki á skoðunum sínum hvað varðar hlutverk og stöðu listamannsins í heiminum. „Ég er þeirrar skoðunar að hver einasti listamaður þurfi að bera fulla ábyrgð á stöðu sinni í samfélaginu og nýta vettvanginn til að vera málsvari friðar og framfara. Og fegurðar – ég trúi að það sé lykilatriði að hætta aldrei að leita fegurðarinnar, næra hana og deila henni,“ segir hann.

Að snúa aftur til keppni

Bocelli segist fagna því að snúa aftur á sviðið. „Að sjálfsögðu fagna ég þessari hægfara endurkomu hversdagsins. Ég ítreka að heimurinn þarf að sinna menningu og listum, til að endurskapa traustið og styrkja gildin. Það er kjarninn í þeim skilaboðum sem ég vil koma á framfæri á þessu tónleikaferðalagi sem nú stendur yfir,“ segir hann.

„Ég neita því ekki að þegar ég hóf tónleikahald að nýju, þá leið mér svolítið eins og íþróttamanni sem var að hefja keppni á ný, eftir langt hlé, eftir tilneydda hvíld.“ Hann segir áhyggjur og þreytu þó alltaf hafa vikið fyrir gleðinni. „Tónleikahald er nauðsynlegt, ég segi það sem listamaður og sem manneskja. Og það var einmitt þessi beina tenging, þetta „maður á mann“ samband sem myndast á tónleikum, sem ég saknaði mest.“

Bocelli fer fögrum orðum um íslenska tónlistarhefð.
Fréttablaðið/Giovanni De Sandre

Mærir íslenska tónlistarhefð

Aðspurður segist Bocelli gríðarlega spenntur fyrir tónleikunum hér á landi. „Ég er gríðarlega spenntur fyrir því að hitta íslensku vini mína og leika fyrir þá sérvalda dagskrá, þar sem ég blanda saman bitum úr meistarastykkjum ítalskrar óperu, við poppaðri ástarlög og tónlist af nýjustu plötunni minni,“ segir hann.

Bocelli fer fögrum orðum um íslenska tónlistarhefð. „Einnig veit ég að þið hafið skapað sterka hefð fyrir tilraunastarfsemi með hljóðið. En á sama tíma játa ég vanþekkingu mína á íslenskri tónlist og vona að ég geti bætt úr því sem fyrst. Ég þekki Björk, að sjálfsögðu, og Jóhönnu Guðrúnu. Ég er virkilega glaður að fá að deila með henni sviðinu í Reykjavík.“

Hyggst bæta fyrir frestun

Hann segist einnig gríðarlega spenntur fyrir að mæta íslenskum áhorfendum og segir þessa tónleika eiga sérstakan stað í hjarta hans.

„Sér í lagi vegna þess að þessum tónleikum var frestað oftar en einu sinni,“ segir hann og bætir við að sér hafi þótt mjög miður að geta ekki staðið við fyrri dagsetningar. „Án þess að ég hafi ætlað mér það, olli þetta mínum kæru hlustendum vandræðum. Þetta er önnur góð ástæða til að gefa allt í þessa tónleika, í von um að skapa kvöld sem verður tileinkað fegurðinni,“ segir hann. „Ef áhorfendur snúa heim með meiri ró í hjarta sínu og bros á vör, þá er tilganginum náð. Þá hef ég náð tilætluðum árangri.“

Bocelli segist ekki munu dvelja jafn lengi á Íslandi og hann hefði óskað. „Yfirleitt eru tónleikaferðirnar í mjög þéttum takti og fela í sér beina ferð á flugvöllinn, hótel, tónleikahald og lítið umfram það. En það er mín einlæga ósk að bæta þekkingu mína á landi elds og ísa, við öldur Atlantshafsins. Ég er viss um að það er vel þess virði.“