Þættirnir hafa fengið nafnið And Just Like That. Samantha Jones (Kim Cattrall) er þó fjarri góðu gamni því einungis þrjár vinkonur koma saman í þessum nýju þáttum. Áhorfendur hitta fyrir Charlotte York, Miröndu Hobbes og Carrie Bradshaw en þættirnir sýna hvernig líf þeirra hefur breyst enda komnar um fimmtugt.

Sumum þótti fyrri þáttaröðin sem sýnd var frá árunum 1998-2004 sýna óraunverulega veröld glæsilegs lúxuslífs þrítugra kvenna. Aðdáendur voru þó mun fleiri sem máttu ekki missa af þætti úr heimi ástalífs, starfsframa og merkjavöru vinkvennanna. Unglingsstúlkur sátu og ræddu stíft um hvað þeim fannst um ást og ástarsorg Carrie sem um leið veitti mikinn innblástur inn í tískuveröldina. Ef þeim leiddist var alltaf hægt að horfa á þættina aftur og aftur og láta sér líða betur með glansveröldinni á skjánum. Hjá mörgum eru bleiku DVD-diskarnir safngripir. Ætli sé kominn tími til að dusta rykið af Manolo-skónum og hella cosmopolitan-kokteil í glas?

Aðdáendur flykktust að til að mynda stjörnurnar þar sem upptökur fóru fram í New York.

Ekki hefur verið gefið út hvenær þáttaröðin verður frumsýnd. Alls verða tíu þættir og það er HBO sem framleiðir þá. Miranda hefur ekki lengur þetta fallega rauða hár því hún er orðin gráhærð. Hinn geðþekki Big (Chris North) kemur við sögu í þáttunum sem fyrr og Aiden (John Corbett) og Steve hennar Miröndu (David Eigenberg). Þótt Samantha sé fjarverandi bætast nýir vinir í hópinn, meðal þeirra er Sara Ramirez sem er þekkt úr þáttunum Grey’s Anatomy.

Í gömlu þáttunum skrifaði Carrie dálka í tímariti en í þeim nýju gerir hún hlaðvarpsþætti. Fataskápurinn hefur þó ekkert breyst og þar munu birtast merkjavörur frá Dior, YSL, Celine, Fendi, Givenchy og Chanel. Búningahönnuður gömlu þáttanna, Patricia Fields, er um þessar mundir upptekin við gerð þáttanna um Emily in Paris númer 2 en Molly Rogers var fengin í hennar stað. New York borg er sem fyrr aðalstaðsetning þáttanna. Hvernig unnið verður úr efninu fáum við að sjá von bráðar.