Skáldsagan Lungu eftir Pedro Gunnlaug Garcia stökk beint í fyrsta sæti metsölulista Pennans Eymundssonar í kjölfar þess að bókin hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki skáldverka í síðustu viku.
Lungu er önnur skáldsaga Pedro Gunnlaugs og í viðtali við Fréttablaðið í desember síðastliðnum kvaðst Pedro hafa verið svo hissa þegar hann hlaut tilnefningu til hinna Íslensku bókmenntaverðlauna að hann öskraði upp fyrir sig.
„Ég öskraði í símann þegar ritstjórinn minn hringdi. Blessunarlega er fótboltamót í gangi þannig að nágrannarnir hafa ekki haldið að ég væri neitt allt of ruglaður,“ sagði Pedro.
Þá vekur athygli að tvær aðrar bækur sem hlutu verðlaun við sama tilefni eru einnig á listanum. Glæpasagan Stóri bróðir eftir Skúla Sigurðsson sem hlaut Blóðdropann er í fjórða sæti. Þá er skáldsagan Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka í tíunda sæti listans.
Ævisaga Harry Bretaprins, Spare, er í þriðja sæti listans en bókin hefur setið á metsölulistum víða um heim síðan hún kom út fyrir tæpum mánuði síðan.
Listinn er tekinn saman yfir mest seldu bækur í verslunum Pennans Eymundssonar undanfarna viku. Listann má sjá í heild sinni hér að neðan:
- Lungu - Pedro Gunnlaugur Garcia
- Keltar (kilja) - Þorvaldur Friðriksson
- Spare - Prince Harry
- Stóri bróðir (kilja) - Skúli Sigurðsson
- Dauðinn á opnu húsi - Anders de la Motte/Måns Nilsson
- Violeta - Isabel Allende
- Costa Blanca: Lifa og njóta - Snæfríður Ingadóttir
- Greppikló - Julia Donaldson
- Kannski í þetta sinn - Jill Mansell
- Kollhnís - Arndís Þórarinsdóttir