Þjóðfræðingurinn Dagrún Ósk Jónsdóttir flytur erindi á Landnámssýningunni við Aðalstræti í dag þar sem hún mun segja frá þeim ótalmörgu þjóðsagnaverum sem fara á kreik kringum jólin.

„Ég er að fara að tala um jólafólin, þessa hryllilegu jólafjölskyldu sem við eigum hérna á Íslandi,“ segir Dagrún. „Það eru auðvitað Grýla, Leppalúði, kötturinn og jólasveinarnir, en þeir eru miklu fleiri en þeir þrettán sem við þekkjum í dag.“

Dagrún útskýrir að fyrr á öldum hafi hver landshluti verið með sitt eigið sett af jólasveinum og ekki hafi verið neitt samræmt kerfi á þeim.

„Þar má finna skemmtilega en um leið hræðilega jólasveina eins og Reykja­svelg,“ segir Dagrún en sá setti munninn yfir reykháfa fólks og gleypti allan reyk sem steig þar upp úr. „Svo blés hann honum annað hvort aftur niður svo eldhúsið fylltist af reyk, eða geymdi hann upp í sér og spúði honum framan í fólk.“

Dagrún sjálf á sér sinn eigin uppáhaldsjólasvein, hinn martraðarkennda Lungnaskvetti.

„Hann var með lungun utan á sér. Hann elti svo börn og reyndi að berja börn með blóðugum og slímugum lungunum á sér,“ segir Dagrún. „Þetta er sko jólasveinn frá Ströndum og við erum svona eins og við erum.“

Þá þekktust einnig jólasveinkur, eða kvenkyns jólasveinar, sem hafa einnig fallið í gleymsku, á borð við Flotsokku og Flotnös.

„Flotnös stal floti og tróð upp í nefið á sér sem var svo stórt að hún kom því þar fyrir,“ segir Dagrún. „Sagan segir raunar líka að hún hafi komið krökkum fyrir uppi í nefinu á sér, ef hún þurfti að koma fyrir óþægum börnum.“

Jólasveinarnir í dag eru þó húsum hæfari.

„Svona hefðir eru auðvitað alltaf að breytast,“ segir Dagrún. „Jólasveinarnir taka upp nýja siði, hætta að vera mannætur og byrja að gefa í skóinn í staðinn.“

Dagrún segir að Grýla hafi verið ansi vinsæl meðal tröllkarla.
fréttablaðið/anton

Faldafeykir myndi ekki pluma sig

Þá er óupptalin hjónabandssaga ættmóðurinnar Grýlu sem átti auðvitað fleiri fyrrverandi eiginmenn en Leppalúða.

„Þótt henni sé lýst sem heldur ófrýnilegri í sögunum þá virðist hún vera frekar vinsæl meðal tröllkarla og á þarna nokkra fyrrverandi eiginmenn eins og Gust og Bola,“ segir Dagrún. „Gustur hlaut þau hræðilegu örlög að þegar þau hjónin urðu eitt sinn veik og lögðust í kör þá dó Gustur en Grýla át hann og hresstist öll við. Frekar svekkjandi fyrir hann.“

Jólakötturinn hefur lengi verið einhver ósanngjarnasta þjóðsagnaveran en Dagrún segir kisu þessa dagana vera að breytast í samræmi við aukna umhverfisvitund. „Hann var eiginlega hluti af samtryggingu bændasamfélagsins. Húsbændur þurftu að sjá til þess að vinnufólk og niðursetningar fengju ný föt um jólin.

En af hverju sitjum við aðeins eftir með þá þrettán jólasveina sem við þekkjum í dag?

„Það er auðvitað mikil synd að hinir hafi horfið,“ segir Dagrún og útskýrir að í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar hafi hann nefnt þrettán jólasveina sem eru þeir sömu og við erum með í dag, fyrir utan jólasveininn Faldafeyki í staðinn fyrir Hurðaskelli.

„Faldafeykir myndi ekki pluma sig vel í samfélagi samtímans, því hann eltir konur og lyftir upp pilsföldum,“ segir Dagrún. „Þegar að Jóhannes úr Kötlum samdi sín jólakvæði og gaf út í kringum 1930 þá skipti hann Faldafeyki út fyrir Hurðaskelli og þar kom fram sú jólafjölskylda sem við þekkjum í dag.“

Erindi Dagrúnar hefst klukkan 15 í dag.